Hraunið í Geldingadölum breiðir úr sér og verður runnið í næstu dali um páskana samkvæmt hraunflæðilíkani Veðurstofunnar. Þykkt hraunsins verður meiri en 35 metrar þar sem hún verður mest.

Löng röð af fólki við gosstöðvarnar hlykkjaðist eftir stikaðri gönguleiðinni í rökkrinu í gærkvöld þegar Rúnar Ingi Garðarsson tökumaður Fréttastofunnar var þar á ferð.

Hún líkist hraunelfunum sem renna úr gígunum. Á þeim er ekkert lát nú sex dögum eftir að gosið hófst. 

Hraunkvikan kemur af 15 til 17 kílómetra dýpri úr möttlinum undir jarðskorpunni. 

Óróagraf frá skjálftamæli Veðurstofunnar á Fagradalsfjalli sýnir að styrkur eldgossins hefur aukist jafnt og þétta undanfarna daga og sérstaklega í nótt segir á vef Veðurstofunnar

Á Veðurstofunni hefur nú verið gert hraunflæðilíkan og miðar það við hve mikið kemur upp af kviku. Það eru um fimm til sex rúmmetrar á sekúndu og hefur lítið breyst segja vísindamenn þar.

Önnur myndin sýnir hraunflæðið eins og vísindamenn telja að það verði eftir sex daga það er tólf dögum eftir að gosið hófst. Gulasti liturinn sýnir minna en fimm metra þykkt hraun og rauðasti liturinn sem ekki verður stór eftir sex daga 25 til 30 metra þykkt hraun. 

Síðan þegar sautján dagar verða liðnir frá upphafi goss þá verður hraunið búið að renna yfir á næsti dalverpi við Stóra-Hrút. Ekki er ljóst af kortum Landmælinga hvort það tilheyri Geldingadölum eða Meradölum. Yfir allt þetta svæði gæti hraunið hafa breitt úr sér annan í páskum. Og meira að segja verður hraunið orðið meira en 35 metra þykkt þar sem mest er, telja vísindamenn á Veðurstofunni. 

Í fyrstu var talið að gosið myndi standa stutt, í eina eða tvær vikur. Nú er talið að það vari lengur. Eins og fram hefur komið eru nálægt dæmi um dyngjugos sem staðið hafa árum saman og eins og þetta með beintengingu gosrásarinnar niður í möttul.