Alfsons Sampsted er í byrjunarliði Íslands í fyrsta skipti í keppnisleik en þessi 22 ára leikmaður Noregsmeistara Bodø/Glimt kemur inn í hægri bakvarðarstöðuna í stað Birkis Más Sævarssonar sem tekur út leikbann.
Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska landsliðsins, segist vona að Alfons átti sig á að þetta sé staðurinn sem hann er kominn á.
„Alfons er þarna bara með stórt tækifæri og getur gripið það með báðum höndum. Ég vona bara að hann átti sig á því að þetta er staðurinn sem hann er kominn á,“ segir Eiður en Alfons var lykilmaður í U21-landsliðinu sem komst á EM. Hann var gjaldgengur í lokakeppnina en Alfons er leikjahæsti U21-leikmaður Íslands frá upphafi með 30 slíka landsleiki.
Alfons, sem er uppalinn í Breiðabliki, hefur aðeins leikið tvo A-landsleiki en byrjar í kvöld sinn fyrsta keppnisleik og það gegn fjórföldum heimsmeisturum Þýskalands.
Við vitum hversu gott par Raggi og Kári eru
Sverrir Ingi Ingason er í byrjunarliðinu í miðri vörn Íslands á kostnað Ragnars Sigurðssonar. Ragnar hefur lítið leikið með félagsliði sínu í Úkraínu en Sverrir Ingi er fastamaður hjá PAOK á Grikklandi.
„Það er alltaf spurning hvernig við púslum liðinu saman. Sverrir Ingi hefur spilað meira en Raggi upp á síðkastið en við vitum hversu gott par Raggi og Kári eru. Við erum kannski líka aðeins að hugsa út fyrir þennan leik því það eru mjög fáir leikmenn í hópnum sem spila alla þrjá leikina í þessum glugga,“ segir Eiður. Hann segir ólíklegt að Jóhann Berg Guðmundsson komi við sögu í leiknum á eftir.
„Það er ólíklegt að Jói fái mínútur í þessum leik þar sem hann er alveg við það að verða alveg heill. En svo kannski metum við það eftir því sem líður á leikinn hvort að sú áhætta væri þessi virði. En ég stórefa að hann komi við sögu í þessum leik,“ segir Eiður sem verður í nýju hlutverki á sínum ferli í kvöld sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.
„Ég hef bara sjaldan sofið betur en í nótt og er fullur tilhlökkunar. Ég er samt viss um að adreanlínið kikkar inn rétt fyrir leik,“ segir Eiður.
Byrjunarlið Íslands gegn Þýskalandi:
Staða | Nafn | Aldur | Landsleikir | Félagslið |
---|---|---|---|---|
Markvörður: | Hannes Þór Halldórsson | 36 | 74 | Valur |
Hægri bakvörður: | Alfons Sampsted | 22 | 2 | Bodø/Glimt |
Vinstri bakvörður: | Hörður Björgvin Magnússon | 28 | 34 | CSKA Moskva |
Miðvörður: | Kári Árnason | 38 | 87 | Víkingur |
Miðvörður: | Sverrir Ingi Ingason | 27 | 36 | PAOK |
Miðja: | Guðlaugur Victor Pálsson | 29 | 23 | Darmstadt |
Miðja: | Aron Einar Gunnarsson (f) | 31 | 91 | Al Arabi |
Miðja: | Rúnar Már Sigurjónsson | 30 | 30 | CFR Cluj |
Vinstri kantur: | Birkir Bjarnason | 32 | 92 | Brescia |
Hægri kantur: | Arnór Ingvi Traustason | 27 | 37 | New England Revolution |
Framherji: | Jón Daði Böðvarsson | 28 | 55 | Milwall |