Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, stýrði karlalandsliðinu í fyrsta sinn í kvöld. Hann segir liðið hafa verið óöruggt í byrjun en hægt sé að byggja á mörgu í síðari hálfleik.
„Það var mjög erfitt að byrja leikinn eins og hann byrjaði,“ segir Arnar Þór, en Þjóðverjar voru komnir í 2-0 eftir rúmlega sex mínútna leik.
„Það er alltaf slæmt fyrir sjálfstraustið að fá á sig mark snemma og annað mark kom strax á eftir. Það var erfitt fyrir strákana að komast í gegnum fyrsta korterið, tuttugu mínúturnar, það var eitthvað sem við vildum komast í gegnum miklu betur.“
Arnar Þór segir íslenska liðið hafa róast mikið eftir byrjunina og spilað miklu betur í síðari hálfleik.
„Í seinni hálfleik, ég verð nú að segja að ég er mjög stoltur af fyrri hálfleiknum. Að vera 2-0 undir á móti Þjóðverjum með þeirra frábæru leikmenn alla, að ná að snúa þessu svona mikið er mjög sterkt. Við komumst líka oft í hærri pressu og þorðum að stíga út úr okkar lágpressu og miðpressu. Heilt yfir, ef ég á að taka þetta allt saman. Fyrri hálfleikurinn var mjög erfiður en seinni hálfleikurinn, við getum byggt á honum, ekki spurning.“
„Við erum nýbyrjaði að vinna saman, erum búnir að taka þrjár æfingar saman. Það er bara mjög eðlilegt að þetta sé ekki fínpússað allt saman. Þjóðverjarnir eru mjög erfitt lið og það er erfitt að loka á þá og ná boltanum af þeim. Um leið og þú stígur út koma hlaup í bakið á þér. Við vorum ekki alveg klárir og vorum aðeins óöruggir, en það er eitthvað sem við tökum með og vinnum úr. Það er mjög gott að við náðum að loka á þessi svæði og hlaup í seinni hálfleiknum og við vinnum með það og einbeitum okkur að næsta leik,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.
Viðtalið við hann má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.