Áfram er búist við straumi fólks í Geldingadali þrátt fyrir hertar samkomutakmarkanir. Bæjarstjórinn í Grindavík segir samkomutakmarkanir gera erfiða stöðu flóknari og hvetur fólk til að hugsa sig um áður en það heldur á gosstöðvarnar.
Krafturinn í eldgosinu í Geldingadölum er engu minni en undanfarna daga. Það sem hefur breyst hins vegar er að minni gígarnir tveir virðast hafa sameinast í einn gíg.
Áhugi almennings á eldgosinu fer hvergi nærri þverrandi og í dag lögðu þúsundir leið sína upp að eldstöðvunum. Í þeirra hópi voru um 130 norskir hermenn sem sinnt hafa loftrýmisgæslu hér á landi og fór ekki leynt að þeir voru spenntir fyrir skoðunarferð dagsins. Suðurstrandarvegur er orðinn að stóru og endilöngu bílastæði og teygði bílaröðin sig langar leiðir.
Björgunarsveitarfólk alls staðar að
Það hefur verið áskorun fyrir Grindvíkinga og viðbragðsaðila að taka á móti öllum þessum fjölda. Ofan á þetta bætist við ný áskorun, fjórða bylgja Covid19-faraldursins og hertar samkomutakmarkanir. „Ekki nóg með að það séu þúsundir manna sem koma í bæinn til þess að skoða þetta heldur erum við með tugi eða hundruð björgunarmanna sem eru að koma víðs vegar að af landinu að vinna þetta verkefni með okkur. Það er alveg gjörsamlega ofviða fyrir okkur Suðurnesjasveitirnar að klára þetta einir,“ segir Steinar Þór Kristinsson í björgunarsveitinni Þorbirni og fulltrúi í aðgerðastjórn.
Fólk hugsi sig um
Grindavíkurbær þarf núna ekki aðeins að huga að smitvörnum hjá bæjarbúum og stofnunum bæjarins heldur streymir í gegnum bæinn fjöldi fólks með tilheyrandi smithættu. „Þó allir séu nú velkomnir til okkar og við fögnum gestum og gangandi, að þá er þetta auðvitað erfitt og kannski ætti fólk að hugsa sig um. Það getur líka bara orðið erfitt að fara hérna um svæðið, það er að segja innanbæjar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Þrátt fyrir harðar samkomutakmarkanir býst Steinar við að fjöldi fólks streymi upp að gosstöðvunum. „Já ég held að við verðum að gera ráð fyrir því og helgin verður ábyggilega þung.“