Nemendur í Fossvogsskóla í Reykjavík byrjuðu skóladaginn í húsnæði Kelduskóla í Grafarvogi í morgun. Bæði skólastjóra og nemendum líst vel á breytinguna. Nemendur skólans verða fluttir með rútum til og frá skólanum á meðan þetta bráðabirgðaástand varir.

Mygla hefur verið viðvarandi vandi í húsnæði Fossvogsskóla frá því í byrjun árs 2019. Ráðist hefur verið í ýmsar framkvæmdir til að vinna bug á myglunni, en að því er virðist án árangurs. Foreldrar barna í skólanum hafa krafist þess að skólayfirvöld rými skólahúsið og margir segja að börn þeirra hafi veikst af því að vera við nám í húsinu að undanförnu. 

Nú er hins vegar búið að finna lausn á húsnæðisvanda Fossvogsskóla, að minnsta kosti í bili, því hann hefur verið fluttur í Kelduskóla í Grafarvogi, og fyrsti skóladagurinn þar var í morgun.

„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er ótrúlega fallegt umhverfi, fallegur skóli, Fossvogsskólaandinn er kominn hingað upp eftir, og það skiptir öllu máli,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla.

Jákvæðar raddir

Um 350 nemendur eru í skólanum og þeir fara með rútu í Kelduskóla, sem einnig er kallaður Korpuskóli. Ingibjörg segir að húsnæðið passi akkúrat fyrir þennan nemendafjölda. Þar var fyrir einn árgangur úr Dalskóla, en hann var fluttur annað.

Hefur þetta ekki verið mikill undirbúningur?

„Jú. Mjög mikill undirbúningur. Og ekki búið að leysa alla þræði. En þetta kemur,“ segir Ingibjörg.

Hvað með foreldrana? Eru þeir ánægðir með þetta?

„Ég hef ekki heyrt annað en jákvæðar raddir.“

Hvað gerið þið ráð fyrir að þurfa að vera lengi hér?

„Við höfum ekki hugmynd um það. Við verðum bara hérna á meðan við getum og á meðan verið er að skoða Fossvogsskóla. Og þegar það liggur endanlega fyrir, og vonandi bara gerist það hratt, kannski út skólaárið, kannski fyrr, kannski lengur, við bara tökum því eins og það er,“ segir Ingibjörg.