Stór hundraðshluti smita sem greinast á landamærum kemur frá fólki sem þarf að ferðast fram og til baka hingað til lands til að sækja atvinnuleysisbætur. Þetta kom fram í máli Kára Stefánssonar í Kastljósi í kvöld.

Hlutfall smita á landamærum er ólíkt eftir því hvaðan flugvélar eru að koma. Að meðaltali er eitt prósent komufarþega með smit. „Það er algengast að það sé smit hjá þeim sem eru að koma frá Austur Evrópu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í Kastljósinu í kvöld.

Kári sagði býsna stóran hundraðshluti þeirra hafa haft búsetu á Íslandi en séu núna atvinnulausir og komi hingað til þess að fá atvinnuleysisbætur með reglulegu  millibili og fari síðan heim til sín.

„Ástæðan fyrir því að það er erfitt að tala um þetta er sú að það er svo stutt milli þess að segja þetta og einhvers konar útlendingaandúðar sem er óásættanleg. En þetta er bara staðreynd, svona líta tölurnar út. Og við verðum að finna einhverja leið til að takast á við það.“

Er hægt að gera það?

Þórólfur sagðist svo sem ekki svarað því hvort það sé hægt eða ekki. „Ég held að það sé allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Auðvitað þurfa menn að skoða þetta vel.“

Býst við að reglum um farþega utan Schengen verði frestað

Þórólfur sagði jafnframt í þættinum að hann teldi að gildistöku reglugerðar um komu farþegar utan Schengen sem átti að taka gildi á föstudaginn verði frestað. 

Farþegar frá til dæmis Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada sem hafi verið bólusettir eða hafa fengið COVID-19, geta komið hingað samkvæmt reglugerðinni framvísi þeir gildu vottorði þar um. 

„Ég get nú kannski ekki alveg svarað fyrir stjórnvöld um það. En það sem ég hef heyrt þá sýnist mér að menn ætli að fresta gildistöku þessarar reglugerðar en ég alla vega stend í þeirri meiningu,“ sagði Þórólfur.