Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk í spennuþáttum sem sýndir verða á HBO Max á næstunni. Víkingur Kristjánsson leikari og vinur Ólafs Darra, sem leikur með honum í Vegferð á Stöð 2 auk þess að skrifa þættina, segist ekki öfunda vin sinn af sigrum hans erlendis heldur samgleðjast. Ólafur Darri segir að heppni hafi mikið með það að gera hvaða velgengni maður fagni í leiklist.

Félagarnir og leikararnir Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur Kristjánsson hafa margt brallað í gegnum tíðina og bralla enn. Um páskana verða frumsýndir nýir gamanþættir með þá vinina í öndvegi, þar sem þeir leika það sem lýsa mætti sem ýktri útgáfu af þeim sjálfum. Víkingur skrifar þættina sem nefnast Vegferð og eru í leikstjórn Baldvins Z. Þættirnir gerast að miklu leyti í bíl, svo Andri Freyr Viðarsson lifði sig inn í þá með því að skella sér á rúntinn með vinunum þegar hann ræddi við þá í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „Við reyndum að fara út úr bílnum eins mikið og mögulegt var því það er ekki það skemmtilegasta að taka upp og vera í bíl,“ segir Víkingur sem lýsir þáttunum þó sem nokkurs konar vega-seríu. „Þetta er ferðalag vestur á firði á fallegasta stað landsins, sem eru Vestfirðir norðanverðir og sunnanverðir líka.“

Sterklega byggðir á þeim sjálfum

Víkingur ítrekar að þættirnir fjalli ekki um þá sjálfa en þeir leika þó menn sem líkjast Víkingi og Ólafi Darra afar mikið. „Við erum að leika félaga sem heita sömu nöfnum og við en eru staddir á öðrum stað í lífinu. Þetta erum ekki við, alla vega ekki ég, kannski er þetta Darri,“ segir hann kíminn en Ólafur Darri þvertekur fyrir það. „Nei. En við erum að leika tvær persónur og þær heita sömu nöfnum og við. Það er ekki bara tilviljun, þær eru sterklega byggðar á okkur en eru ekki við,“ segir hann.

Hefur ekki fundið til öfundar í garð vinar síns

Það er nóg um að vera hjá Ólafi Darra að vanda. Hann fer meðal annars með hlutverk í væntanlegum spennuþáttum frá framleiðslurisanum HBO. Þættirnir heita The Tourist og verður Ólafur Darri í góðum félagsskap þekktra leikara. Má þar nefna Jamie Dornan, sem fer með aðalhlutverkið, og Hugo Weaving.

Víkingur samgleðst vini sínum og segist ekki öfunda hann af velgengninni. „Það er svo mikil dyggð að samgleðjast og auðvitað, það er mannlegt að finna til öfundar en ég hef ekki fundið til þess í tilfelli okkar Darra. Ég hef eiginlega frá upphafi samglaðst honum mjög mikið.“

„Djöfull var Víkingur góður“

Víkingur segir enn fremur að fáir myndu þola álagið sem fylgir slíkri velgengni eins vel og Ólafur Darri og hann sé að því leyti réttur maður á réttum stað. „Ég gæti ekki gert þetta eins og hann, þetta er allt of erfitt held ég að leika svona mikið og erfið hlutverk.“

Ólafur segist sömuleiðis vera mikill aðdáandi Víkings og að sér finnist að hann ætti að fá enn fleiri hlutverk. „Mér hefur alltaf fundist hann frábær og það kemur á óvart að hann vinni ekki meira sem leikari. Ég er bara alveg hreinskilinn með það.“ Frammistaða Víkings beri gjarnan af í því sem hann kemur nálægt.

Hann snýr sér að Víkingi. „Þegar þú hefur verið að leika í sjónvarpi og í bíó og öðru þá finnst manni maður alltaf sitja upp með: Djöfull var Víkingur góður. Til dæmis í Broti, mér fannst þú æðislegur.“

Heppinn að fá réttu hlutverkin

Þættirnir fjalla líka að sumu leyti um einmitt þennan veruleika leikarans. „Ég hef oft sagt að það er stór hluti af því að komast áfram í okkar bransa, heppni. Og það er það,“ segir Ólafur Darri hógvær. „Auðvitað skipta hæfileikar miklu máli, en sérstaklega kannski í okkar bransa; að vera réttur maður á réttum stað á réttum tíma, það er bara allt. Ég er sem betur fer ekki nógu vitlaus til að trúa því að ástæðan fyrir minni velgengni sé að ég sé betri en allir hinir. Ég hef bara verið heppinn að fá réttu hlutverkin og kynnast góðu fólki sem vildi mér vel.“

Gaman að vinna með vinum sínum

Við tökur á Vegferð var hann enda ekki síst umkringdur góðu fólki. „Mér finnst ógeðslega gaman að fá að gera þetta með Víkingi vini mínum af því að mér finnst hann frábær leikari en líka því það er svo gaman að vinna með vinum sínum.“

Vegferð er sex þátta sería sem verður frumsýnd á páskadag. Þetta er samblanda af gaman- og dramaþáttum sem fjalla um tvo vini sem fara í ferðalag vestur á firði til að komast í tengsl við sjálfa sig og ná ró í hjarta og sál, og styrkja vinabönd, segir Víkingur. „Og eins og í öllum góðum seríum kemur eitt og annað upp á sem reynir á þá og þeirra vinskap og svona, þeir þurfa að taka ákvarðanir sem þeir höfðu ekki endilega hugsað sér að taka.“  Á meðal leikara í þáttunum eru Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Felix Bergsson, Pálmi Gestsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Anna Hafþórsdóttir og Elfar Logi Hannesson.

Eru alltaf að nöldra og bulla í hvor öðrum

Það reyndi ekki á samband vinanna í tökunum heldur eru þeir sammála að það hafi styrkst svo um munar. „Við erum alltaf að nöldra í hvor öðrum og bulla. Okkur finnst gaman að bulla og fáum að bulla mikið í þessum þáttum,“ segir Ólafur Darri. „Mér fannst mjög auðvelt að sitja inni í bíl og hlæja og bara hafa gaman í vinnunni.“

Þeir eru sammála um að Vestfirðir hafi skartað sínu fegursta meðan á tökum stóð og vinirnir nutu lífsins saman. „Það eru algjör forréttindi. Og eins og Víkingur sagði áðan, þetta eru gamanþættir en það sem er skemmtilegt við þá er að þeir eru það ekki bara. Þeir tala við mann um stóra hluti í lífinu sem maður er ekki oft að fjalla um eins og vináttu, það að eldast og hvaða ábyrgð maður ber á fólkinu í kringum sig.“ Persóna Víkings í þáttunum lítur á ferðalagið sem tækifæri til að verða betri manneskja en persóna Ólafs Darra telur sig vera á leið í strákaferð með það að markmiði að detta í það og hafa gaman.

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Ólaf Darra Ólafsson og Víking Kristjánsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.