Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hóf blaðamannafundinn um hertar sóttvarnir á þessum orðum. Hún sagði að landsmenn hefðu búið við eitt mesta frelsi allra síðustu þrjá mánuði en nú séu blikur á lofti. Smitum sem greinast daglega fjölgar hratt og því ætla yfirvöld að grípa til harða aðgerða, sem taka gildi á miðnætti. Skólum verður lokað og starfsemi, sem ekki rúmast innan tíu manna fjöldatakmarkana, verður hætt.

Talið er að flestir sem greinst hafa með veiruna síðustu daga séu með breska afbrigði veirunnar. Katrín segir að sérkenni þessa breska afbrigði sé að það leggist þyngra á börn og unglinga. „Við erum á allt öðrum stað en við vorum fyrir ári - við þekkjum þennan óvin betur en áður.“ Hún segir stöðuna þá að margir séu komnir í skjól með bólusetningu. „Við sjáum fyrir endann á þessari baráttu,“ sagði Katrín á fundinum. 

Það breyti því ekki að staðan nú kalli á hertar aðgerðir, að mat Katrínar. Hún segir að staðan nú svipi til upphafsins í haust og það hafi verið niðurstaða ríkisstjórnarinnar að stíga fast til jarðar, grípa hratt og ákveðið inn í. „Við grípum mjög fast inn í með mjög ákveðnum hætti.“ Þetta þýðir líka skemmri tíma og ofurkapp sé lagt á að stemma stigu við útbreiðslu breska afbrigðisins.