Dæmi eru um utanvegaakstur á gossvæðinu sem gæti endað í kæruferli. Til að auðvelda fólki för vargönguleið stikuð að eldstöðinni í dag.

Flestir fylgdu fyrirmælum lögreglu um að fara ekki á gosstaðinn í dag, enda ekkert vit í því, þar gekk á með dimmum éljum. Þá mældist gas yfir hættumörkum við eldstöðina. Björgunarsveitirnar fóru í nokkrar eftirlitsferðir í dag á svæðið til að tryggja að enginn væri í hættu. „Gasið leynir svo á sér. Þetta er stórhættulegt. Fólk dettur bara niður ef maður lendir í svona pollum sko. Við þurftum að hverfa úr einni hvilft með hraði, dró niður í okkur,“ segir Valmundur Árnason, frá Björgunarfélagi Akraness.

Fólk hefur gert sér ferð á ýmsum ökutækjum að gosstöðvunum og mörg dæmi um utanvegaakstur sem lögreglan hefur áhyggjur af. Þessar myndir eru teknar í Merardal í dag.  „Síðan er allur gangur á því hvernig menn eru að keyra, sumir eru að keyra og spóla um, sérstaklega í Merardölum. Þar eru klárlega merki um ógætilegan akstur,“ segir Sigurður Bergmann. aðalvarðstjóri á Suðurnesjum

Þetta eru för eftir mótorhjól, fjórhjól og jeppa. Sigurður segir það eftir að koma í ljós hvort þessi mál endi með sektum. Má fólk ekki keyra þessa slóða sem liggja að gosinu? „Nei klárlega ekki sko.“

Til að auðvelda fólki að komast að gosstöðvunum þegar aðstæður leyfa var byrjað að stika gönguleið í dag frá Suðurstrandarvegi, sem til stendur að opna í kvöld með einstefnu að hluta. Þessi gönguleið á að vera styst og öruggust.