Guðlaugur Victor Pálsson vonast til að ná að stimpla sig vel inn í íslenska landsliðið í fótbolta hjá nýju þjálfarateymi landsliðsins. Hann spilaði stóra rullu í liðinu í þjálfaratíð Eriks Hamrén en hafði fram að því fá tækifæri fengið með landsliðinu.
Guðlaugur sem verður þrítugur í næsta mánuði á 23 leiki fyrir A-landsliðið. Hann er í hópnum núna sem spilar við Þýskaland, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM 2022 á næstu dögum. Fyrst er það leikur við Þjóðverja á fimmtudagskvöld og Guðlaugur Victor er spenntur fyrir þeim leik.
„Þetta er bara virkilega spennandi. Við erum auðvitað að fara að spila á móti mjög góðu liði með heimsklassa leikmenn í öllum stöðum. Það er alltaf gaman að spila á móti bestu þjóðunum og bestu leikmönnunum, þannig það er bara mikil tilhlökkun,“ sagði Guðlaugur Victor við RÚV á æfingu íslenska landsliðsins í Düsseldorf í dag.
„Vita alveg að það verður erfitt að brjóta okkur“
Guðlaugur Victor spilar í Þýskalandi með liði Darmstadt. Hann var því spurður út í umtal Þjóðverja um íslenska landsliðið. „Það er náttúrulega bara stórmótin 2016 og 2018 sem fólk man eftir. Við erum náttúrulega mjög agaðir í okkar leikstíl og það er eitthvað sem Þjóðverjar fíla vel. Þannig að þeir vita alveg að það verður erfitt að brjóta okkur niður sem lið. Það er það sem ég hef fengið að heyra að við munum örugglega bara standa í okkar blokk og verjast þeim vel.“
Guðlaugur Victor barðist fyrir sæti í íslenska landsliðinu um árabil og átti sjaldnast upp á pallborðið. Þegar Erik Hamrén tók við fékk Guðlaugur hins vegar stórt hlutverk og hefur spilað flesta landsleikina síðan. Hans staða í landsliðinu hefur því breyst mikið.
Alltaf langað í stórt hlutverk í landsliðinu
„Maður fer upp og niður í fótboltanum og maður hefur ekki alltaf allt í eigin höndum. En ég hef bara unnið mjög hart að því að komast aftur í landsliðshópinn og stimpla mig svo inn í hann. Hvort sem það er í hægri bakverði eða á miðjunni, það skiptir mig í raun ekki neinu máli. En fyrir mitt leyti er það bara að ég hef haft skýr markmið og mig hefur alltaf langað til að vera mikilvægur partur af íslenska landsliðinu. Ég gaf aldrei upp vonina á því. Þó ég hafi kannski ekki verið lengi í liðinu á þeim tíma. Núna hef ég verið í kringum liðið í nokkur ár og er að berjast fyrir því að vera í byrjunarliðinu. Ég fékk marga leiki hjá síðasta þjálfarateymi og ég stefni að því sama hjá núverandi þjálfurum,“ sagði Guðlaugur Victor.
Lengri útgáfu af viðtalinu við Guðlaug Victor má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Leikur Íslands og Þýskalands verður sýndur í beinni útsendingu RÚV á fimmtudag klukkan 19:45.