Þúsundir gosþyrstra ferðalanga gengu í Geldingadal í dag og urðu ekki fyrir vonbrigðum. Nokkur verðmæti urðu þó hrauninu að bráð og björgunarsveitir þurftu að vísa fólki frá jaðrinum, en langflestir voru til fyrirmyndar. Svangur ferðalangur ætlaði að elda beikon og egg handa sér og vinum sínum, en hafði ekki erindi sem erfiði, en hraunið vann það kappát.
Eldgosið við Fagradalsfjall hefur verið kallað túristagos og er það nokkuð nærri lagi. Það er erfitt að ímynda sér hvernig aðstæður væru við gosstöðvarnar ef ekki væri fyrir heimsfaraldurinn. Fjöldi fólks á svæðinu í dag skipti þúsundum. Flestir löbbuðu, en margir fóru á langleiðina á reiðhjóli, sumir tóku rafskútuna sína, og fjallahjólaeigendur gripu tækifærið og hjóluðu alla leið.
Beikonið „heldur betur að skemmast”
Atli Gunnarsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, segir langflesta hafa hagað sér vel. „Við náttúrulega gerðum ráð fyrir því að það kæmi mikið fólk hingað. Kannski ekki svona margir,” segir hann. „Einn og einn fór aðeins of nálægt hrauninu. Það er svona eitt og eitt tilfelli sem kemur upp.”
Eiríkur Hilmarsson matgæðingur er einn þeirra.
„Þetta er beikonið mitt. Heldur betur að skemmast. Ég ætlaði að mata strákana eftir gönguna og það virðist bara vera að skemmast. Þetta voru einu birgðirnar, þannig að það eru bara samlokur og vatn í restina.”
Tilfinningin er bara orka
Helga Margrét Sigurbjörnsdóttir og Jón Benediktsson voru heldur betur hrifin. „Tilfinningin er bara orka. Hún er bara algjör orka,” segir Jón. „Þetta er rosalega flott. Og ef maður gefur sér smá tíma til að hlusta og finna drunurnar sem eru hérna. Þetta er alveg æðislegt,” segir Helga.
Einn og einn vísindamaður
Þær hafa verið nokkrar, sjálfsmyndirnar, teknar í dag, og líklega hafa margir drónaeigendur gripið tækifærið til að ná einstökum myndum, sama hvað það kostar. Björgunarsveitir þurftu á tímabili að reka fólkið frá hraunjaðrinum. Og innan um almúgann leyndist einn og einn vísindamaður að sinna störfum sínum. Meðal þeirra var Birgir Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. „Við erum að mæla áberandi merki, eða náttúruleg merki á staðnum. Sem við notum til að rétta hæðalíkön. Svo mælum við og myndum næstu daga og vikur og notum myndirnar til að búa til ný líkön. Þá höfum við atburðarrásina alla skráða.”