Lengi skal manninn reyna er yfirlitssýning á myndlistarverkum Þorvaldar Þorsteinssonar í Listasafninu á Akureyri.
„Það er eins og hann verið alltaf tug eða tveimur á undan samtíðinni,“ segir Guðrún Pálína Guðmundsdóttir sýningarstjóri. Sýningin spannar viðamikinn feril Þorvaldar og ber fjölhæfni hans fagurt vitni. Guðrún var skólasystir Þorvaldar í listnámi í Hollandi og hefur rannsakað þróun hans ferils í þaula. „Fljótlega eftir námið í Hollandi fór hann að vinna mikið innsetningar og konseptverk þar sem hann byggði á sterkri hugmynd. Mikið svarthvítar ljósmyndaseríur sem eru til á Listasafni Reykjavíkur. Það sem ég nefni hér er bara myndlistin en hann gerði náttúrulega alveg helling af listsköpun í aðrar greinar, hann er þekktur rithöfundur og vasaleikhúsið á RÚV þar sló hann í gegn upphaflega, hann gerði söngtexta og leikrit, Skilaboðaskjóðuna og Blíðfinn,“ segir hún.
Afmælisdagurinn
Auk Guðrúnar Pálínu annaðist Ágústa Kristófersdóttir sýningarstjórn. Þá vann Hlynur Hallsson að sýningunni ásamt Helenu Jónsdóttur, ekkju Þorvaldar, sem veitti ráðgjöf og lánaði verk. „Við erum með elsta verkið sem hann gerði og gaf Listasafninu þegar það opnaði 1993, það heitir 7. nóvember sem var afmælisdagurinn hans, hann hefði orðið sextugur núna síðasta nóvember ef ævin hefði enst honum.“
Forskot Þorvaldar á samtíma sinn birtist skýrt í seríu sem minnir á samfélagsmiðla dagsins í dag. „Svo er sería sem er úr daglegu lífi sem sýnir fólk hér á Akureyri í daglegum athöfnum og það var ekkert venjulegt á þeim tíma en núna í dag með digital myndum þá er náttúrulega fólk alltaf að pósta á samfélagsmiðla myndir af sér í daglegum athöfnum þannig að Þorvaldur var mjög á undan sinni samtíð,“ segir Guðrún.
Einstaklega fyndinn maður
Meðal innsetninga á sýningunni er verkið Söngskemmtun, þar sem skilaboð um kóræfingu hafa verið hengd á lokaðar dyr. „Söngskemmtunina á Listasafn Íslands og lánaði okkur. Þar sem kemur maður að lokuðum dyrum og heyrir kórsöng og það er svolítið það sem Þorvaldur vildi alltaf miðla: að vera svolítið seinn og missa af, alltaf er eitthvað búið að ske eða um það bil að byrja, þú ert í einhverju millibilsástandi, hann hefur lýst þessu nokkrum sinnum, “ segir Guðrún og bætir við að þar birtist skýrt kómíkin sem einkennir mörg verka Þorvaldar. „Hann var svo mikið með leiki og skop, þetta var náttúrulega einstaklega fyndinn maður, Þorvaldur. Hann var líka rosalega ástríðufullur kennari, fyrirlesari og með menntastefnu sem er mjög áhugaverð.“
Sýningin er unnin í samstarfi við Hafnarborg í Hafnarfirði, en þangað flyst sýningin í lok árs.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér: Lengi skal manninn reyna.