Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga og benda gögn til þess að mjög hafi hægt á kvikuflæði. Líkur á eldgosi hafa minnkað til muna.
Þótt yfir 500 skjálftar hafa mælst við Fagradalsfjall frá miðnætti hefur dregið mjög úr virkninni upp á síðkastið. Skjálftarnir eru bæði færri og veikari. Nýjar gervihnattamyndir styðja það sem vísindamenn hafa talið, að mjög hafi hægst á kvikuflæðinu og að kvika sé jafnvel tekin að storkna í kvikuganginum.
„Mögulega er þessum kafla bara að ljúka. Ég myndi efast um að þetta sé búið en jú, það virðist vera sem þessum kafla sé að ljúka án þess að við getum fullyrt það en það lítur allt út fyrir það,“
Og þar af leiðandi fara líkur á gosi minnkandi með hverjum deginum?
„Já ég myndi segja það, ég á ekkert von á gosi á næstunni miðað við hvernig þróunin er núna,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur.
En það er ekki þar með sagt að jörð sé með öllu hætt að skjálfa. Upp úr klukkan fjögur í nótt hófst jarðskjálftahrina við Reykjanestá þar sem mælst hafa rúmlega hundrað skjálftar, sá stærsti 3,7 að stærð og fannst hann vel í Grindavík.
„Þetta er nú hefðbundin skjálftahrina við Reykjanestá. Við náttúrlega getum ekkert sagt um það hvort hún er triggeruð af virkninni við Fagradalsfjall eða hvort hún hefði farið af stað hvort eð er. En að öllum líkindum hefur hún nú verið triggeruð en þetta er mjög hefðbundin virkni á svipuðum slóðum og við sjáum endurteknar hrinur og ekkert sem bendir til að þetta sé endilega kvikutengt. Allavega ekki eins og staðan er núna,“ segir Benedikt.