Karlmaður á sjötugsaldri, sem grunaður er um að hafa kveikt í húsi á Bræðraborgarstíg síðasta sumar þar sem þrír létust, er metinn ósakhæfur, samkvæmt yfirmati geðlækna, sem staðfestu fyrra mat. 

Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Verjandi mannsins fór fram á að réttað yrði yfir manninum fyrir luktum dyrum, en dómari hafnaði þeirri kröfu. Ákæruvaldið hyggst kalla þrjátíu og fimm vitni fyrir dóminn, en verjandinn fór fram á að lagðar yrðu fram lögregluskýrslur tveggja einstaklinga sem handteknir voru á vettvangi fyrir að torvelda störf svo kanna megi hvernig þeir tengjast málinu. Dómurinn verður fjölskipaður og fer aðalmeðferð fram tuttugasta og sjötta apríl.