GPS-gögn sýna að kvikusöfnun undir Nátthaga suður af Fagradalsfjalli hafi haldist stöðug síðan fyrir helgi. Þetta er á sama stað og skjálftavirknin hefur verið hvað mest. Eftir því sem þetta varir lengur, aukast líkurnar á eldgosi. Gjósi í Nátthaga gæti hraun flætt yfir Suðurstrandarveg. Þetta segir Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands
„Nú er þetta nokkurn veginn á sama stað. Þetta er allavegana ekki að færast þannig að við sjáum það að neinu ráði. Þetta byrjaði einmitt þarna við Keili og ferðaðist svo til suðvesturs og svo virðist vera stopp þarna í bili. Miðað við það að við erum að sjá stærri skjálfta þarna á suðurendanum, þá kannski er einhver fyrirstaða sem stoppar þetta í að halda áfram til suðurs en við eigum eftir að sjá hvað verður,“ segir Benedikt.
Hann segir að fyrirstaðan gæti verið til dæmis mismunandi lega á sprungum í jarðskorpunni. „Þetta er ekkert að fara lengra í bili. En það þýðir ekki að það geti ekki gert það. Við teljum það ólíklegri möguleika.
Það er frekar ef það heldur áfram að byggjast upp þrýstingur þarna eins og við sjáum vera að gerast núna að frekar að það verði eldgos þarna á þessum slóðum. Án þess að það sé hægt að útiloka hvað þetta gerir næst.“
Þeim mun lengur sem kvikan er föst á sama stað, því líklegra er að þar verði eldgos.
„Það byggist upp þrýstingur og við sjáum það í GPS-inu, við sjáum það á skjálftavirkninni og með tíma, ef ekkert annað breytist, þá myndi ég segja að líkurnar aukist með hverjum deginum. Þetta getur tekið daga eða vikur. Ég myndi halda að það væri ekkert mjög langt að bíða. En það fer eftir því hvað jarðskorpan heldur þarna. Hversu mikinn þrýsting hún þolir áður en hún gefur eftir.“