Með nýju atvinnuátaki „Hefjum störf“ stefnir ríkisstjórnin á að skapa allt að sjö þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra sveitarfélaga, telur alla græða á átakinu.

Atvinnuleysi var 11,4 prósent í febrúar og í síðasta mánuði var greint frá því að atvinnuleysi hér á landi væri það mesta á Norðurlöndunum. 4.719 manns höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok febrúar og þeim fjölgaði um 200 í síðasta mánuði. Þeir eru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. 

Með átakinu, sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, verða ráðningarstyrkir útvíkkaðir. „Við erum að taka núverandi ráðningastyrki og víkka þá út tímabundið til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Ráðningarstyrkir fyrir fleiri

Litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa færri en 70 starfsmenn stendur til boða að fá 472 þúsund króna stuðning á mánuði með hverjum atvinnuleitanda sem þau ráða sem hefur verið án vinnu í 12 mánuði eða lengur, auk 11,5 prósenta framlags í lífeyrissjóð. Þá greiðir Vinnumálastofnun ráðningarstyrk í allt að sex mánuði til sveitarfélaga og opinberra stofnana sem ráða fólk sem er við það að ljúka bótarétti eða fullnýttu bótarétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. október til 31. desember 2021.

Félagasamtökum verður gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur launum að hámarki 472.835 kr. á mánuði auk 11, 5 prósenta mótframlags í lífeyrissjóð. Og ríkið greiðir 25 prósenta álag til að standa straum af kostnaði við verkefnin. Þá stendur til að kynna atvinnuúrræði fyrir námsmenn í sumar. 

Ráðast gegn langtímaatvinnuleysi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðirnar ætlaðar til að koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi verði böl í samfélaginu. „Þarna erum við að horfa sérstaklega á þau sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá, að það sé stuðlað að því með þessum skýru aðgerðum að þau komist aftur út á vinnumarkað og verði hluti af þeirri nauðsynlegu viðspyrnu sem þarf að verða í íslensku samfélagi,“ segir hún í samtali við fréttastofu. „Þetta getur breytt í raun tilveru fólks sem hefur verið lengi án atvinnu. Að fá tækifæri til að fara aftur út á vinnumarkað,“ segir Katrín.

Þið óttist annars að fólk ílengist í atvinnuleysi?
„Ef við lærum af reynslu annarra landa sjáum við að svona kreppa getur orðið til þess að auka ójöfnuð í samfélögum, ekki síst ef fólk festist í langtímaatvinnuleysi,“ segir Katrín. 

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, telur að aðgerðirnar flýti fyrir viðspyrnunni upp úr kreppunni:

„Þetta eru mjög góð tíðindi. Við hlökkum mikið til að takast á við þetta verkefni. Fyrir ári síðan vorum við að taka á móti fólki beygðu og brotnu því atvinnan fjaraði undan þeim. Við væntum þess að við sjáum atvinnuleysistölurnar lækka og lækka,“ segir hún. 

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, er á sama máli:

„Það er mikilvægt að fólk fái störf með þeim launum sem boðin eru þarna sem eru mun hærri en fjárhagsaðstoð sem þau myndu hugsanlega fá ef þau fengju enga vinnu eftir að þau missa bótarétt í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þannig í raun hefur þetta þau áhrif að þetta dregur úr vexti útgjalda til fjárhagsaðstoðar og styrkir útsvarsstofn sveitarfélaga. Og í raun og veru græða allir á þessu,“ segir hann.

En eru þessi störf til?

„Sveitarfélögin eru vön að taka þátt í verkefni sem þessu og ég efast ekki um að þau muni búa til þau störf sem þarf til, til að þau standi við sitt í þessu,“ segir Karl.