Haraldur Þorleifsson stofnaði fyrirtækið Ueno árið 2014 utan um ýmis lausamennskuverkefni sem hann hafði á sviði grafískrar hönnunar, hönnunar á vefjum og öppum og ýmsu skjáefni. Í fyrra var veltan 3 og hálfur milljarður og í janúar í ár seldi hann fyrirtækið með tugum starfsmanna til Twitter fyrir milljarða króna en nákvæm tala er trúnaðarmál.

 

Haraldur er með heimspeki- og viðskiptafræðimenntun en er sjálflærður í grafískri hönnun enda var það aldrei ákvörðun hans að fara þessa leið. Hann er með meðfæddan vöðvarýrnunarsjúkdóm sem gerði það að verkum að um 24 ára aldur þurfti hann að byrja að nota hjólastól. Áður en hann seldi fyrirtækið flutti hann til Íslands sérstaklega til að borga skatta af sölunni á Íslandi því hann segir að íslenskt samfélag og sérstaklega heilbrigðiskerfið hafi gert það að verkum að hann sé á þeim stað sem hann er í dag. Nú hefur hann stofnað til átaksverkefnis ýmissa fyrirtækja og Reykjavíkurborgar um að byggja 100 hjólastólarampa í borginni.

Var kominn með nóg

Haraldur segist hafa verið mjög sáttur við að selja fyrirtækið á sínum tíma. Hann hafi verið kominn með nóg af því sem hann var að gera og hann vilji ekki verða forstjóri fyrirtækis aftur.

„Það var svo lýjandi, og einmanalegt. Í ofanálag var ég eini eigandinn. Mér fannst eins og ég bæri ábyrgð á öllu. Það var endalaust af mistökum sem maður gerir og maður þarf einhvern veginn að halda áfram og ekki horfa til baka en samt að læra af mistökunum og svo ertu með tugi eða hundruð manna sem eru að treysta á þig. Allir eru með hugmyndir um hvernig þeir vilja gera hlutina, það þarf að sannfæra alla um að fara einhverja ákveðna leið. Þetta er svo lýjandi, ég tók mér eiginlega ekkert frí í 7 ár. Ég fann að ég hef ekki áhuga á að gera þetta aftur,“ segir Haraldur.

Þakklátur Íslandi

Hann sneri við blaðinu og hætti að drekka fyrir áratug síðan, og upp frá því vann hann markvisst að því að byggja upp fyrirtækið, skref fyrir skref, sem hann seldi svo.  Svo ákvað hann og fjölskyldan að flytja til Íslands. 

Hann segir að hann hafi alist upp í verkamannafjölskyldu en að á Íslandi hafi hann notið menntunar og heilbrigðisþjónustu sem ekki séu sjálfsögð réttindi í Bandaríkjunum. Það hafi haft áhrif á þá ákvörðun hans að flytja heim eftir að hafa auðgast vel við sölu á fyrirtæki hans. 

„Ég gat farið í skóla, ég hafði aðgang að heilbrigðiskerfinu, með aðgang að allskonar hlutum sem er hluti af öryggisnetinu hérna, og ég finn það þegar ég fer út, eins og til Bandaríkjanna að það er ekki sjálfsagt. Það er mjög ólíklegt að ég hefði getað menntað mig eins og ég gerði ef ég hefði alist upp í Bandaríkjunum. Þegar ég áttaði mig á því að þetta væri hægt, að við gátum flutt hvert sem er og borgað skatta þar sem við myndum búa þá hringdi ég í konuna mína, þetta var svona 10 sekúndna samtal þar sem ég sagði „heyrðu ég var að komast að því að við getum borgað alla skatta á Íslandi, eigum við ekki að gera það? og hún sagði jú,“ segir Haraldur. 

Hann sagði að í söluferlinu hafi hann fengið alls konar ráðleggingar þar sem mælt var með allskonar leiðum til að sleppa við að borga alla skatta. 

„Það eru alls konar leiðir, allskonar löglegar leiðir sem er mjög skrýtið að sé löglegt sem hægt er að gera. Við fórum ekkert mjög djúpt í það en það var mælt með allskonar hlutum já,“ segir Haraldur.

Haraldur er einn af þeim sem stendur á bak við verkefnið Römpum Reykjavík upp þar sem markmiðið er að auka aðgengi fólks í hjólastól að verslunum, og öðrum stöðum í borginni. 

Rætt var við Harald í Kastljósi í kvöld. Þáttinn má sjá í heild sinni hér að ofan.