Afhendingaráætlun er til fyrir bóluefni Moderna og Pfizer í apríl. Að öðru leyti hefur ekki verið lögð fram áætlun fyrir annan ársfjórðung ársins. Þetta kemur fram í samtali fréttastofu við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra en hún býst við að áætlun verði tilbúin innan skamms.

„Það hlýtur að fara að detta í hús á næstunni,“ segir Svandís auk þess sem búast megi við markaðsleyfi fyrir bóluefni Janssen síðar í þessum mánuði og þá megi fljótlega búast við afhendingaráætlun fyrir það efni.  

„Þar höfum við tryggt okkur 235 þúsund skammta sem er einn á mann. Það er jákvætt.“

En er óvissan bagaleg?

„Það er með faraldurinn eins og jarðhræringarnar á Reykjanesskaganum að það væri alltaf betra að vita meira en þetta sýnir okkur hve miklu máli skiptir að hafa úthald og þolgæði.“ Svandís segir bólusetningadagatalið ekki í uppnámi vegna atburða síðustu daga. 

Rikisstjórnin hefur kynnt litakóðunarkerfi sem taka á upp á landamærunum 1. maí. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í Kastljósi í gær að ekki hefði enn verið tekin ákvörðun um það.

„Ríkisstjórnin hefur tekið um það að stefna að þessari breytingu 1. maí, að því gefnu að við sjáum faraldurinn í rénun hér og í löndunum í kringum okkur. Það er okkar markmið ennþá.“ Svandís segir forsendur hafa verið skýrðar og frá þeim greint.  

Þarf þá mögulega að hverfa frá þessu ef ástandið versnar hér innanlands?

„Við gerum ráð fyrir að halda okkur við fyrra plan í þessum efnum. Það er alltof fljótt að segja að það sé breytt.“