Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir að það hafi ekki verið léttvæg ákvörðun reyna að fá ógildingu á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Héraðsdómur hafnaði á föstudag kröfu ráðherrans um ógildingu og ætlar ráðherra að áfrýja málinu til Landsréttar.

„Það var ekki léttvæg ákvörðun á sínum tíma að fara í ógildingu. Ákvörðunin var hins vegar tekin í kjölfar þess að ég fékk álit sérfræðinga á þessu sviði að rökstuðningurinn á sínum tíma að hann hefði ekki verið fullnægjandi. Það er að segja að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kynferðis,“ sagði Lilja í viðtali við Ingvar Þór Björnsson, fréttamann, nú rétt fyrir hádegi. Hún hafði ekki áður veitt viðtöl um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur á föstudag.

Hafdís Helga Óskarsdóttir sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneyti en Páll Magnússon var ráðinn. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði með ráðningunni brotið jafnréttislög. 

Fékk álit tveggja sérfræðinga og vill fara eftir þeim 

Lilja kveðst hafa fengið tvö álit og að sér hafi fundist erfitt á sínum tíma að taka þessa ákvörðun. „En um leið og ráðherra hefur fengið sérfræðinga á þessu sviði og þeir ráðleggja með þessum hætti þá fannst mér það líka vera mín skylda að fara í ógildingu en ég get svo sannarlega sagt að þetta var ekki léttvæg ákvörðun.“

Ráðherra ætlar að áfrýja málinu til Landsréttar og segir að sömu rök eigi við núna og þegar hún ákvað að fara með málið fyrir héraðsdóm. 

Dómur héraðsdóms var afdráttarlaus. Er verjandi að ríkið haldi málsókninni áfram? „Þetta snýr ekki að því, þetta er lögfræðilegt álitamál. Það kemur líka fram í áliti umboðsmanns þegar hann er að fjalla um kærunefndir að það sé ekki hennar hlutverk að endurmeta sjálfstætt hvort einstaklingur hafi átt að fá skipan eða ekki. Þetta er lögfræðileg spurning fyrst og síðast.“

Eru þetta ekki slæm skilaboð til kvenna, að þær þurfi að standa í svona stappi við ríkið þegar brotið hefur verið á þeim? „Þetta var ekki léttvæg ákvörðun og það hafa fleiri gerst brotlegir, því miður, við jafnréttislög og þetta er þungbært.“

Telur ekki að málið hafi þau áhrif að fólk leiti ekki réttar síns

Hún telur að málið eigi ekki eftir að hafa þau áhrif að fólk hiki við að leita réttar síns. Ef ríkið tapar málinu á ný fyrir Landsrétti, segir Lilja að staðan verði endurmetin. Þá segir hún að aðrir ráðherrar hafi ekki farið þess á leit við hana að láti það vera að áfrýja málinu. Það hafi verið rætt ítarlega á vettvangi ríkisstjórnarinnar á sínum tíma.