Fjölveikindi eru ein stærsta áskorun læknisfræðinnar á 21 öld. Þetta segir Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir og lektor við læknadeild Háskóla Íslands. Fjölveikindi eru mun algengari nú á dögum en þau voru hér áður fyrr. Flest allir sem leita eftir læknisþjónustu hvort sem farið er til heimilislækna eða á spítala glíma við fjölveikindi.

Fjölveikindi eru algengari nú á dögum

Orðið fjölveikindi heyrist sífellt oftar notað nú á dögum í tengslum við sjúka og aldraða. Þau ásamt færniskerðingu eru talin algengustu ástæður þess að fólk er lagt inn á sjúkrahús, samkvæmt því sem Aðalsteinn Guðmundsson, sérfræðingur í almennum lyf og öldrunarlækningum og klínískur dósent í öldrunalækningum, skrifaði í Læknablaðið fyrir nokkru. Hann benti á að margt bendi til þess að fjölveiku öldruðu fólki sé ekki vel sinnt í heilbrigðiskerfinu.  

Sagt er að sá sé fjölveikur sem er með tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma. Allir langvinnir sjúkdómar geta fallið undir hugtakið. Hjá ungu fólki eru algengastir langvinnir stoðkerfisverkir og ýmiss konar andleg vandamál. Hjá eldra fólki hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki og fleira. Stundum eru áhættuþættir eða sjúkdómar eins og offita, háaþrýstingur og of há blóðfita einnig teknir með í reikninginn.

Margrét Ólafía hefur rannsakað fjölveikindi. Hún segir að þeir sem eru fjölveikir séu með töluverða sjúkdómsbyrði. Þeir séu með marga erfiða sjúkdóma sem spila saman á flókinn hátt. 

Fjölveikindi séu algengari nú af mörgum ástæðum. Sú fyrsta sé hækkandi aldur fólks og hækkandi meðalaldur þjóða valdi því að sífellt fleiri lifa með mörgum sjúkdómum sem þróist svo með aldrinum. Bætt heilbrigðisþjónusta og betri læknismeðferð verði til þess að fólk er líklegra til að lifa með eftirköstum sjúkdóma eða lifa með sjúkdómum frekar en að þeir dragi fólk til dauða. „Þá erum við til dæmid að tala um fólk sem hefur farið í gegnum krabbameinsmeðferð og lifa með eftirköstum þess. Líka þá sem eru með erfiða hjarta- og æðasjúkdóma eftir að hafa fengið hjartaáfall eða lifa lengi eftir að hafa fengið slag.“ Einnig megi nefna að læknar greina fleiri vegna bættrar greiningartækni. „Við erum ekki bara að tala um þennan eldri hóp fólks við erum líka að tala um yngra fólk sem er að glíma við langvinna verki og andleg vandamál og þá erum við komin með sérstakan áhættuhóp sem er ólíkur þeim sem eldri eru.“ 

Tengsl milli fjölveikinda og erfiðrar æsku

Margrét Ólafía skrifaði doktorsritgerð fyrir þremur árum um fjölveiki. Í tengslum við hana rannsakaði hún fjölveikindi meðal íbúa Norður-Þrændalaga í Noregi og skoðaði sérstaklega streitu í því sambandi. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að finna út hve algeng fjölveikindi væru og möguleg tengsl milli erfiðra aðstæðna, í barnæsku eða á fullorðinsárum, við fjölveikindi síðar á ævinni. 

Niðurstöðurnar sýndu að 42 prósent þeirra sem tóku þátt glímdu við fjölveikindi og einnig voru tengsl milli fjölveikinda og erfiðrar æsku og streitu á fullorðinsárum. „Við sáum mjög sterk tengsl þar á milli hvort sem það er beinn orsakavaldur eða ekki þá eru tengslin greinileg og hafa verið sýnd endurtekið í öðrum rannsóknum.“

Margrét Ólafía segir að komið sé inn á sams konar tengsl í rannsókn um áfallasögu kvenna sem verið er að vinna hér á landi. Einnig hafi á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu verið rannsökuð svefnlyfjanotkun og fjölveikindi.  

Stærsta áskorun heilbrigðisvísinda

„Í rauninni hafa rannsóknir sýnt að flest allir þeir sem að leita læknisþjónustu hvort sem það er til heimilislækna eða inn á spítala eru að glíma við fjölveikindi. Og með hækkandi aldri fólks og bættri meðferð þá er þetta líklega ein stærsta áskorun heilbrigðisvísindanna á næstu árum að halda vel utan um þá sem eru að glíma við fjölveikindi.“

Fjölveikindi séu gríðarlega algeng jafnvel þegar einungis er miðað við þrönga skilgreiningu á hugtakinu. „Þó við klippum burt það sem við myndum einfaldlega telja sem áhættuþætti að þá er þetta samt virkilega algengt. Við erum að tala um upp undir 40 prósent af almennu þýði.“

Mikilvægt að horfa heildrænt á fólk 

Margrét Ólafía segir að heilbrigðisvísindin byggist á rannsóknum sem venjulega eru gerðar hjá fólki sem er einungis með einn langvinnan sjúkdóm. Öll lyfjaþróun og þróun meðferðar taki mið af slíkum rannsóknum. „En þegar við erum komin með fleiri sjúkdóma inn í myndina með öðrum meðferðum þá erum við komin með flóknari lyfjameðferðir og mögulegar milliverkanir lyfja.“  Einnig gæti það að fara strangt eftir klínískum leiðbeiningum vegna eins sjúkdóms haft slæm áhrif á næsta sjúkdóm. „Þannig að við þurfum stundum að færa fókusinn frá því að fara strangt eftir klínískum leiðbeiningum og horfa frekar heildrænt á fólk og vinna að því hvernig við getum bætt lífsgæði frekar en að horfa í meðferðartölur.“ 

Heilbrigðiskerfið byggt upp með sjúkdóma í huga

Heilbrigðiskerfið hefur verið skipulag með tilliti til sjúkdóma og hvar í líkamanum þeir eru. Spyrja má hvort fjölveiki hafi alltaf verið til en sérfræðingum sem sérhæfðir eru í einum sjúkdómi eða líkamshluta hafi ekki áttað sig á því. „Þetta er skemmtileg spurning af því ég held að það sé einmitt þetta tvennt. Í fyrsta lagi var þetta ekki alveg eins algengt en heilbrigðiskerfið hefur líka verið byggt upp á þann hátt að þú er að fókusera fyrst og fremst á einn sjúkdóm og það er svolítið þetta kerfi sérfræðinga sem við höfum byggt á.“ Undanfarið sé farið að horfa meira heildrænt á fólk og það hafi orðið til þess að fleiri greinast fjölveikir. 

Margrét Ólafía segir að heildræn nálgun sé mikilvæg og mikilvægt að við týnum okkur ekki í einstefnu í heilbrigðisvísindum, „þar sem við erum fyrst og fremst að bara horfa á einn sjúkdóm en horfum betur á heildarmyndina og mögulega bæta lífsgæði skjólstæðinga okkar. Heildræn nálgun sé nú þegar kjarni heimililækninga en samt sem áður þurfi vitundarvakningu. „Og ég held að oft mætti huga betur að þessu á öðrum stigum heilbrigðisþjónustunnar bæði inn á spítala og í annars stigs þjónustunni.“ Ef það yrði gert myndi það mögulega bæta lífsgæði fólks og draga úr þróun á fleiri sjúkdómum. „Það myndi ef til vill koma í veg fyrir einhver tilfelli fjölveikinda sérstaklega hjá þessum yngri hópi þar sem streita, álag og áföll eru oft mögulega undirliggjandi orsök.“