Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að nýjar gervitunglamælingar sem gerðar voru í dag sýni rúmmálsaukningu sem verði að taka tillit til þegar sérfræðingar meta hvert framhaldið geti orðið í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga. Því gæti þurft að taka möguleikann á gosi með í reikninginn, þar sé þó alls óvíst um hvaða tímaskala sé verið að ræða.
„Nýjasta vending í málinu er þetta að mælingarnar frá því í morgun virðast sýna að við verðum að taka þann möguleika með í reikninginn að það sé þarna kvika byrjuð að streyma upp í neðri hluta skorpunnar. Hún er ekki komin upp undir yfirborðið eða neitt þess háttar. Ef hún skyldi gera það þá er líklegasti gosstaðurinn einhvers staðar á bak við Keili, séð héðan frá höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.
„Þessi hugsanlega sviðsmynd myndi gera ráð fyrir því að þessi gangur gæti hugsanlega náð til yfirborðs og þarna yrði gos á mjög óvæntum stað, eða mjög óvenjulegum stað í raun og veru,“ sagði Páll og vísaði til skjálftanna í nágrenni við Keili í dag.
Páll sagði ekki ástæðu til að pakka í töskur, eins og heyrst hefur að sumir hafi gert til að búa sig undir brottflutning. „Við vitum reyndar ekki tímaskalann á þessu. Þetta er ekki að bresta á þannig. Jafnvel þó að það byrjaði gos þarna þá tæki langan tíma fyrir hraun að renna frá þessum stað, það stendur þannig á. Það getur safnast þarna talsvert hraun áður en það fer að renna í einhverjar áttir.“