Nú er verið að prófa bóluefni gegn COVID-19 á börnum, til að mynda á börnum þriggja til átján ára í Kína. Ef öryggið reynist gott og ónæmissvar ásættanlegt verða börn bólusett í framhaldinu.
Þetta kom fram í máli Ingileifar Jónsdóttur, prófessors í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, sem var gestur morgunvaktarinnar á Rás eitt. „Við erum heppin með þessa veiru að hún sýkir börn síður, þau verða minna veik og þau smita síður en fullorðnir.“
Að sögn Ingileifar eru börn í minni hættu en fullorðnir og því sé óhætt að bíða með að bólusetja þau. Ingileif segir ekki mikla hættu á að sérstakur faraldur brjótist út meðal barna.
„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag þá er það afar ólíklegt, og þeim mun fleiri fullorðnir sem eru bólusettir þeim mun minni líkur eru á að börnin smitist.“
Búist við markaðsleyfi fyrir Janssen í mars
Tæplega sex þúsund fengu bólusetningu við COVID-19 hér á landi í nýliðinni viku. Hér á landi eru þrjú bóluefni með markaðsleyfi og í notkun, bóluefni Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Staðfest áætlun er til um afhendingu þeirra til loka mars.
Þessir framleiðendur hyggjast afhenda bóluefni fyrir samtals 190 þúsund einstaklinga fyrir júnílok að því er fram kemur á vef almannavarna. Bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen fékk markaðsleyfi Lyfjastofnunar Bandaríkjanna á laugardag.
Ingileif segir bóluefni Janssen svipað efni AstraZeneca, það sé veiruferja sem ber genið fyrir broddpróteinið. Það aðgreini þau að aðeins þarf að gefa einn skammt af bóluefni Janssen til að ná 66-67% vernd, eftir því hvort er hún er skoðuð tveimur eða fjórum vikum eftir að skammturinn er gefinn.
Það segir Ingileif að byggi á tilraunum með þátttöku 43 þúsund manns í nokkrum löndum. Leyfisveiting til Janssen hefur verið til meðferðar hjá Lyfjastofnun Evrópu og búist er við niðurstöðu fyrir miðjan mars.
„Ef það gengur eftir þá veitir Lyfjastofnun hér leyfi samdægurs, eins og með fyrri bóluefni, enda tekur hún þátt í matsferli evrópsku stofnunarinnar á öllum bóluefnum.“
Það séu góðar fréttir og mikil viðbót enda kosturinn sá að efni Janssen nýtist betur ef einn skammtur nægir. Nóg sé að geyma efnið í ísskáp en verndin er heldur lægri en hjá hinum framleiðendunum.
„Verndin gegn alvarlegum sjúkdómum er þó alveg upp í 85% eftir einn skammt,“ segir Ingileif og bætir við að önnur bóluefni hafi verið prófuð með tveimur skömmtum.
Þannig verði til þokkaleg vernd, en ekki sé vitað hve lengi hún varir. Ingileif segir AstraZeneca hafa sýnt fram á það í síðustu viku að verndin fyrir yngri en 55 ára, þegar þrír mánuðir líði á milli, sé 80%. Hún nái ekki nema 50% sé bólusett með sex vikna millibili.
Niðurstöðu beðið um vernd AstraZeneca efnisins fyrir eldri hópa
„Ónæmissvarið nær að þróast betur áður en seinni skammturinn kemur. Verndin fram að öðrum skammti er 76%, þannig að það er góð vernd fólgin í því að gefa bóluefnið eins og hér er gert.“ Ekki sé vitað hve lengi verndin dugi eftir fyrsta skammt.
„Það sýnir sig með bóluefni Janssen að nóg er að gefa einn skammt. Prófanir sem eru í gangi núna gætu sýnt fram á að ekki sé verra að gefa seinni skammt af því til að halda ónæmissvarinu lengi, ekki síst meðan útbreiðslan er jafn mikil og hún er á heimsvísu.“
Ingileif segir þess nú beðið hve vel bóluefni AstraZeneca dugi til að vernda eldri en 55 ára. Rannsóknir Janssen og Pfizer byggi á prófunum á 43 þúsund manns og Moderna 30 þúsund, sem sé nægilegt tölfræðilegt afl til að greina verndina í öllum undirhópum.
Það séu góðar niðurstöður að verndin sé svipuð fyrir 60 til 65 ára og eldri og fyrir hópinn í heild.
Fylgst með bóluefnum eftir útgáfu markaðsleyfis
Almennt, segir Ingileif reynsluna þá að með tveimur skömmtum aukist ónæmisminni. Það þurfi að fylgjast gaumgæfilega með alvarlegum aukaverkunum sem gætu komið fram seinna.
Öllum bóluefnum sem fái markaðsleyfi sé fylgt eftir í minnst tvo mánuði frá síðasta skammti síðasta þátttakanda en þá ættu allar algengar aukaverkanir að vera komnar fram.
Í fjórða stigs prófunum, eftir að markaðsleyfi er gefið og almenn notkun hafin, kveður Ingileif fylgst með hvort ónæmið helst og hvort aukaverkanir komi fram.
Almennt sé reynslan sú af bólusetningum að mótefni minnki eftir langan tíma. Aðalvandinn felist í því að veiran taki breytingum sem verði til þessa að breyta þurfi breyta bóluefninu, sem sé þegar hafið.
Framleiðendur þróa næsta stig bóluefnis
Að sögn Ingileifar ráða núverandi bóluefni vel við breska afbrigðið en hafi heldur lægri virkni mótefna gegn því suðurafríska. Hins vegar virðast þau vernda ágætlega gegn því.
Hluti rannsóknar Janssen hafi verið gerð í Suður-Afríku og reyndist verndin þar ágæt, eða um 57%. „Af þeim sem veiktust í þeirri rannsókn voru 95% með þennan stofn og verndin því sambærileg og gegn upprunalegum stofni og í öðrum löndum.“
Enn óritrýndar niðurstöður frá Suður-Afríku segir Ingileif sýna að ákveðin stökkbreyting í broddpróteini veirunnar virðist tengjast því að hún sleppi undan ónæmisvaranum, þar sé minni verndandi máttur mótefna.
Sama stökkbreyting sé í brasilíska afbrigðinu og AstraZeneca, Pfizer og Moderna séu þegar tekin til við að þróa næsta stig bóluefnis. Í því sé sami grunnur og í því upprunalega með geninu fyrir broddpróteinið úr stökkbreyttu afbrigðunum.
Tilraunir séu í gangi þar sem nýja efnið er gefið sem þriðji skammtur ásamt upprunalega efninu til að kanna hvort það að hækka mótefnin dugi almennt til varnar.
Eigingirni að afþakka bóluefni AstraZeneca
Ingileif segir sína skoðun vera þá að eigingirni felist í því að afþakka bóluefni AstraZeneka, aðeins vegna þess að eitthvað annað sé kannski heldur betra.
Lítil rannsókn sýni að það dugi illa gegn suðurafríska afbrigðinu, með 22% vernd, sem sé langt undir þeirri 50% kröfu sem gerð sé til að fá markaðsleyfi.
Því sé ekkert vit í að gefa bóluefnið á þeim svæðum þar sem sá stofn er ráðandi. Hins vegar sé fráleitt að afþakka það í Evrópu því það sé öruggt og gott fyrir ákveðna aldurshópa.
Misskipting bóluefna alvarleg fyrir allan heiminn
Ingileif segir ekki aðeins alvarlegt fyrir fátækustu þjóðir heims að fá sama og ekki neitt af fyrirliggjandi bóluefnum, heldur allan heiminn.
Meðan veiran sé mjög útbreidd í ákveðnum heimshlutum berist hún um heiminn um leið og landamæri eru opnuð.
Hún segir viðhorfið þó vera að breytast en það þurfi að koma bóluefnum til fátækari ríkja heims. Nú hafi yfir 90% verið bólusett í Ísrael, 60% í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 30% í Bandaríkjunum og rúmlega 9% á Íslandi.
Þetta sé misskipting sem byggi á efnahag og því þurfi efnaðri þjóðir að taka saman höndum og tryggja aðgengi allra. „Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunun hafa hafa kallað mikið eftir því og ég vona að það breytist.“