Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar í um stóra og glæsilega ljósmyndasýningu Ragnars Axelssonar, Þar sem heimurinn bráðnar, sem nú stendur yfir í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:
„Ímyndaðu þér að vakna snemma morguns í nyrstu byggð heims, um hávetur í svartamyrkri. Spangól einmana hunds rýfur þögnina. Úti er fimbulkuldi. Það er eins og þorpið sofi. Enginn á ferli. Spangólið stigmagnast þegar hundarnir í þorpinu vakna hver af öðrum. Tregablandið spangól grænlenska sleðahundsins hefur einhvern óræðan sjarma sem hefur róandi áhrif. Í tregasöngnum býr saga einhverra mestu hetja norðurslóða, ferfætlinga sem gerðu mönnum kleift að komast á báða póla jarðarinnar. Harðgert dýr sem á ögurstundu kom veiðimönnum heim í öruggt skjól gegnum heimskautastorma. Söngur hundanna á Grænlandi hefur ómað í gegnum aldirnar. Ef til vill leynist boðskapur í tregablandinni hundgánni fyrir heiminn að hlusta á; heimkynni hans eru að breytast.“
Svona rammar ljósmyndarinn Ragnar Axelson inn nýja ljósmyndaseríu sína sem hann kallar Hetjur norðurslóða. Serían er hluti af stórri yfirlitssýningu á verkum hans sem nú fer fram í Listasafni Reykjavíkur og ber yfirskriftina Þar sem heimurinn bráðnar í sýningarstjórn Einars Geirs Ingvarssonar. Á sunnudaginn fór ég í Hafnarhúsið öðru sinni til að sjá þessa glæsilegu sýningu, og í þetta skiptið var röð út á gangstétt. Biðin var stutt og eftir leiðbeiningar frá vinsamlegum safnverði fylgdi ég straumnum upp stigann ásamt 16 ára syni mínum. Hann var að koma í þriðja sinn.
Sýningin er umfangsmikil og skartar um 90 verkum af 40 ára löngum ferli Ragnars, eða RAX eins og hann kallar sig. RAX hefur fest sig í sessi sem einn færasti heimildar- og landslagsljósmyndari samtímans, ekki bara hér á landi heldur einnig í alþjóðlegu samhengi. Í sýningarskrá eru verk hans sett í flokk með alþjóðlega virtum blaða- og heimildarljósmyndara á borð við James Nachtwey, Eugene Smith, Mary Ellen Mark og jafnvel Henry Cartier-Bresson. Hér myndi ég líka vilja bæta við verðlaunaljósmyndaranum Sebastião Salgado, sem meðal annars er þekktur fyrir að mynda frumbyggja í heimalandi sínu, Brasilíu. Báðir listamennirnir, RAX og Salgado, skrásetja mannlíf á viðkvæmum svæðum og beina þannig athygli umheimsins að berskjölduðum hópum sem eiga undir högg undir sækja, en um leið eiga þeir sinn þátt í að framandgera sömu hópa og viðhalda ákveðnum staðalímyndum um frumstæði, tímaleysi og einangrun.
Á sýningunni blasa við þrír heimar: fólk, dýr og síbreytilegt landið sem þau byggja. Sögusviðið hér er Ísland og Grænland, og Ragnar er sögumaðurinn. Þetta eru abstrakt myndir úr lofti af bráðnandi jöklum, mannlífsmyndir af bændum og sjómönnum sem búa á mörkum fortíðar og nútíðar, og myndir af veiðimönnum, hundum þeirra, og hrikalegu landslaginu sem umlykur þá. Ragnar er óumdeilanlega fær ljósmyndari. Hann hefur einstaka hæfileika til að þefa upp áhugaverðar sviðsmyndir og fanga augnablik sem við hin komumst sjaldan í tæri við. Myndir hans sýna tengsl mannsins við umhverfi sitt, oft í öfgakenndum aðstæðum, einhvers staðar á jaðrinum, á brúninni, úti við ystu nöf. Þessar senur endurspegla gjarnan einhvers konar umbreytingaferli, sem bæði fólk og land verður fyrir á þessum slóðum, ýmist vegna loftslagsbreytinga eða vegna innreiðar nútímans. Ragnar er skrásetjari þessara breytinga, hvort sem það er fljúgandi yfir jöklum, þjótandi á hundasleða undan heimskautastormi eða eltandi fjallkónga ofan í á einhvers staðar lengst inni á afrétti.
Myndirnar á sýningunni eru allar svarthvítar, sem eykur á fortíðarþrána sem er að finna í hverri þeirra. Mjúk skerpa, þykk áferð og fullkomin tækni í að ná fram andstæðum ljóss og myrkurs auka á aðdráttarafl myndanna. Sumar þeirra verða svo efnislegar með grófkornaðri áferðinni að manni virðist sem hægt sé að skera gegnum myrkrið með hníf. Þetta á sérstaklega við í minni sýningarsalnum, þar sem lýsingin hefur verið dempuð þannig að myndefnið stekkur næstum á mann fram úr myndunum. Þarna veltum við sonur minn mikið fyrir okkur eftirvinnslu myndanna, framköllunarferlinu og þeim aðferðum sem Ragnar hefur þróað við að láta samspil ljóss og myrkurs virka á svona skarpan og áhrifaríkan hátt. Gaman var að brjóta heilann um það úr hvaða átt birtan kæmi, hver afstaða ljósmyndarans væri miðað við viðfangsefnið, hvaðan vindurinn blés, hvernig væri hægt að ná þessum ótrúlega glampa á ísjökunum, hrukkunum í andlitum mannanna og glampanum í augum hundanna.
Ljósmyndir Ragnars eru svo sannarlega mjög áhrifaríkar, maður hreinlega dregst að þeim rétt eins og hann sjálfur dregst að viðfangsefni sínu. Þær endurspegla dulúðlega birtu, dramatísk veðrabrigði og baráttu mannsins við hrikaleg náttúruöfl á hjara veraldar, þar sem hetjudáðir og svaðilfarir veiðimanna, fjallkónga og smaladrengja segja grípandi sögur. Þessar sögur má einnig heyra Ragnar sjálfan segja á röð vídjóinnslaga á Vísi.is, þar sem hann lýsir starfi sínu, og tenglsum sínum við fólkið og landið sem hann tekur myndir af. Þessari frásagnir veita verkunum á sýningunni í Hafnarhúsinu aukið gildi, því ljósmynd er ekki síður áhugaverð fyrir aðstæðurnar sem hún er tekin í en hún sjálf. Maður finnur einmitt svo vel á sýningunni fyrir þörf Ragnars fyrir að finna fyrir umhverfinu og sjálfum sér í því, að fanga, grandskoða og skilja umhverfi sitt. Að skilja fólk, að tengjast fólki, að hafa raunverulegan áhuga á því. Sumum persónum myndanna hefur hann fylgt eftir í 35 ár og myndað náin tengsl við. Þessi forvitni er hrífandi eiginleiki og hvetur áhorfandann til að staldra við og gefa sér tíma til að íhuga myndefnið og lifa sig inn í söguna sem hver ljósmynd segir.
Ragnar hefur hér unnið mikið frumkvöðlastarf. Hann vinnur eins og mannfræðingur á vettvangi, safnar gögnum í formi frásagna, goðsagna og ljósmynda. Hann fer til að horfa, verða vitni að, skrásetja, lýsa og túlka. Ljósmyndin er einmitt einn hentugasti miðillinn sem við höfum til að skrásetja raunveruleikann. Ljósmyndalistin gengur út á að fanga augnabilk þar sem einn örsnöggur smellur ljósopsins þjappar saman flóknum upplýsingum um ástand, hreyfingu, svipbrigði, liti, ljós, lögun. Hins vegar sýnir hún okkur aldrei raunveruleikann eins og hann er, heldur endurspeglar hún alltaf afstætt sjónarhorn þess sem tekur myndina. Ljósmyndin sýnir okkur þannig heiminn með augum þess sem tekur hana, út frá huglægu augnaráði ljósmyndarans. Það er einmitt hér sem við finnum svo sterkt fyrir því sjónahorni sem Ragnar velur til að skrásetja veruleikann með, sjónarhorni sem sýnir aðeins eina sneið af marglaga og flóknum veruleika. Ragnar beinir linsunni að karlmönnum í hlutverki veiðimanna, smalamanna, einsetumanna, og landinu umhverfis þá og dýrum þeirra. Þannig skapar hann hetjur norðurslóða. Í seríunni frá Grænlandi sjáum við hvergi konum bregða fyrir, en kvennastörf þar eru jafn nauðsynleg og karlanna, til að halda við þeim siðvenjum og þeirri sérhæfðu þekkingu sem veiðimannasamfélagið þarfnast til að deyja ekki út. En í kvennastörfunum felst auðvitað ekki sama spennan, áhættan eða lífsháskinn og í karlastörfunum, og því öllu minni hetjuskap þar að finna. Svona í hefðbundnum skilningi þess orðs, allavega. Það er einmitt á þennan hátt sem myndir Ragnars eru dáldítið íhaldssamar og sumpart klisjukenndar. Þær eiga sinn þátt í að viðhalda gömlum staðalímyndum um frumstætt samfélag úr tengslum við samtímann, svo úr verður viss framandgerving. Við fáum einungis innsýn inn í hetjuskap og karlmennsku, þar sem dirfska, hugrekki, þrautsegja og úthald eru í forgrunni, meðan öll önnur sjónarhorn eru skilin eftir, eru látin falla utan rammans.