Almannavarnir hafa farið yfir rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Borgarstjórinn í Reykjavík segir áætlunina fyrst og fremst ganga út á að rýma ákveðna hluta höfuðborgarsvæðisins, en ekki svæðið í heild.
Í áætluninni segir meðal annars að tilgangur hennar sé að forða fólki á höfuðborgarsvæðinu úr varhugaverðum aðstæðum.
„Rýmingaráætlunin er ein af almannavarnaráætlununum eða viðbragðsáætlunum almannavarna sem við viljum hafa til taks ef á þarf að halda. Vegna þess að þegar eitthvað kemur upp á, þá skiptir mjög miklu máli að þurfa ekki að byrja á því að setjast við skrifborðið og skipuleggja hvað eigi að gera, í hvaða röð og hver beri ábyrgð á hverju,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík sem jafnframt er formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.
Róandi upplýsingar
Dagur segir að algengustu sviðsmyndirnar gangi út á að færa fólk til innan höfuðborgarsvæðisins eða að rýma heilu hverfin. Einhverjir hafa velt fyrir sér hlutverki Sundabrautar í hugsanlegri rýmingu en miðað við rýmingaráætlunina kæmi hún lítið við sögu.
„Höfuðborgarsvæðið í heild sinni, það væri mjög mikill ábyrgðarhluti að ætla sér að rýma það allt saman. Sérstaklega yfir einhvern lengri tíma, vegna þess að það er í raun ekkert svæði á landinu sem gæti með auðveldum hætti tekið á móti öllum sem búa á höfuðborgarsvæðinu, og séð þeim fyrir húsaskjóli og vistum og svo framvegis.“
Þannig að það er ekki verið að tala um að fólk fari langt út úr bænum, upp á Akranes, Borgarnes, austur fyrir fjall og svo framvegis?
„Nei. Það væri kannski eitthvað sem fólk á auðvelt með að sjá fyrir sér ef maður fer inn í hugarheim einhverra stórslysamynda. En ef við tökum atburð eins og hugsanlegt eldgos í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og annað slíkt, þá verða slíkar sviðsmyndir mjög ósennilegar.“
Komi til rýmingar verður fólk fyrst og fremst látið vita í gegnum fjölmiðla, samfélagsmiðla og sms-skilaboð.
„Og oft er það sem skiptir mestu máli að koma róandi upplýsingum á framfæri. Því það er í gríðarlega mörgum tilvikum það versta sem getur gerst ef að allir rjúka út í bílinn sinn og ætla að keyra eitthvert. Þannig að það að gera hluti skipulega, og af ró, þegar eitthvað stórt gerist, skiptir mjög miklu máli. Að forgangsraða bæði mannskap og innviðum og í hvaða röð hlutir eru gerðir,“ segir Dagur.