Til stendur að opna Eurovision-safn á Húsavík í sumar. Verkefnið fékk styrk frá ríkisstjórninni í morgun. Blár kjóll sem Jóhanna Guðrún klæddist í keppninni árið 2009 verður á meðal sýningargripa.

Ríkisstjórnin samþykkti að veita styrki upp á 14 milljónir í margvísleg mál.

Sveitarstjórn Múlaþings fékk þriggja milljóna króna styrk til að kaupa verkið Frelsi eftir Sigurð Guðmundsson sem er minnisvarði um Hans Jónatan á Djúpavogi. Hans Jónatan var sonur ambáttar og þræll á heimili dansk-þýskra hjóna en flúði þrældóminn til Íslands og settist að á Djúpavogi.

Heimildarþættir Jóhannesar Kr. Kristjánssonar og Sævars Guðmundssonar um COVID-19 faraldurinn fengu fimm milljónir króna. Jóhannes og Sævar hafa fylgst með framvindu mála allan COVID-faraldurinn og vonir standa til að sex þættir verði tilbúnir til sýningar í haust.

Þá fær áhugamannafélagið Afrekshugur um fjórar milljónir til að gera afsteypu af samnefndri styttu eftir Nínu Sæmundsson sem er við inngang hins sögufræga Waldorf-hótels í New York. Hugmyndin er að afsteypunni verði fundinn staður í nýjum miðbæ Hvolsvallar.

Lordi og Jóhanna Guðrún

Loks fékk Eurovision-safnið á Húsavík styrk upp á tvær milljónir. Hugmyndin að safninu kviknaði eftir velgengni Eurovision-myndar Wills Ferrell þar sem Ísland var í stóru hlutverki. 

„Við sáum náttúrulega bara þegar þessi mynd kom út gríðarleg tækifæri til þess að gera eitthvað með þessa sögu. Þessi mynd náttúrulega talar mjög mikið inn í skilgreindan markhóp. Þannig að það eru verðmæti í henni og að ná þessu fólki til Húsavíkur,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri.

Húsnæðið er til staðar, 330 fermetra hús sem Örlygur á sjálfur. 

„Og við höfum væntingar til þess að vera búin að klára að fjármagna verkefnið núna fyrir lok febrúar. Markmiðið er að opna í maí eða í síðasta lagi einhvern tímann í sumar.“

Verið að safna munum sem tengjast keppninni, bæði hér heima og erlendis.

„Ég get sagt þér frá því að núna í morgun var ég að klára að ganga frá því við Jóhönnu Guðrúnu að fá bláa kjólinn hennar. Það er náttúrulega eitt af krúnudjásnum íslensku Eurovisionsögunnar, skulum við segja. Við erum að tala við fyrrverandi sigurvegara erlendis frá um að fá lánaða búninga. Við erum til dæmis búin að vera í sambandi við Lordi úti í Finnlandi,“ segir Örlygur Hnefill.