Meinafræðideild Landspítalans gæti tekið að sér rannsókn á leghálssýnum en ekki hefur verið óskað eftir því. Þetta segir yfirlæknir Meinafræðideildar. Biðtími eftir niðurstöðu rannsókna á sýnum sé styttri hjá deildinni en annars staðar á Norðurlöndum. „Synd að sýni úr íslensku fólki séu send úr landi ef það er óþarfi,“ segir yfirlæknirinn.

Rannsókn á sýnum færðist frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin og ákveðið var að sýnir yrðu send til Danmerkur til rannsóknar. Mikil töf hefur orðið á þeim rannsóknum og hafa sumar konur þurft að bíða í nokkra mánuði eftir svari við því hvort vísbendingar hafi fundist hjá þeim sem gætu leitt til krabbameins. Hópur lækna hefur gagnrýnt harðlega að sýnin séu send úr landi til greiningar.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum hefur krafið heilbrigðisráðherra um skýrslu um forsendur áhrif breytinga á fyrirkomulagi leghálsskimunar. Þá er farið fram á að kannað verði hvort heilbrigðisráðuneytið hafi lagt mat á greiningargetu meinafræðideildar Landspítalans.

En hefur verið óskað eftir því að Meinafræðideildin greini leghálssýni?

„Nei, það hefur ekki verið óskað eftir því. Meinafræðideild Landspítalans hefur aldrei verið með þess háttar sýni til rannsóknar á sínum vegum,“ segir Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir Meinafræðideildar.

Þyrftu að ráða starfsfólk Krabbameinsfélagsins í vinnu

Til þess að geta rannsakað leghálssýni þarf lífeindafræðinga og frumunumeinafræðinga með sérþekkingu og sérstakan tækjabúnað sem Meinafræðideild á ekki. 

„Ef það væri óskað eftir því við okkur að taka þetta að okkur, þá reikna ég með að við gætum gert slíkar ráðstafanir,“ segir Jón.

Ráða þyrfti það sérhæfða starfsfólk sem sinnti verkefninu hjá Krabbameinsfélaginu, kaupa eða leigja tækjabúnaðinn af félaginu og húsnæðið. 

Synd að senda sýnin úr landi

„Auðvitað hlýtur að vera óhagræði að þurfa að senda sýni úr landi og mér sjálfum finnst synd að sýni úr íslensku fólki séu send úr landi ef það er óþarfi, ef það er hægt að gera það hér á landi,“ segir Jón.

Jón segir að hann hafi verið spurður fyrir allmörgum árum hvort meinafræðideildin vildi taka yfir rannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins en því hafi verið hafnað. Þá hafi borist bréf frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í lok júlí í fyrra þar sem spurt var hversu mikið Meinafræðideildin myndi taka fyrir rannsókn leghálssýna. Gefnar voru þrjár vikur til að svara sem Jón segir að hafi verið of knappur tími.

 

„Og nefndum í því bréfi jafnframt að við værum í sjálfu sér ekki að ásælast þessa starfsemi því við töldum að henni væri vel komið hjá Krabbameinsfélaginu,“ segir Jón.

 

Styttri biðtími eftir niðurstöðu

Jón segist ekki vita hversu fljótt danska rannsóknarstofan skili niðurstöðu úr sýnarannsóknum.

„Ef að við tækjum þetta að okkur myndum vitanlega reyna að hafa stuttan svartíma. Svartími í vefjarannsóknum er mjög stuttur hjá okkur miðað við Norðurlöndin og ég á von á að við gætum gert það í frumusýnum líka,“ segir Jón.