Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, talaði í tvígang við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag, eftir að lögreglan greindi fjölmiðlum frá sóttvarnarbroti í Ásmundarsal. Fjármálaráðherra var á meðal gesta í salnum. Áslaug Arna segist ekki hafa verið að skipta sér af rannsókn málsins, heldur hafi hún aðeins verið að spyrja um upplýsingagjöf lögreglu. Reglur um upplýsingagjöf til fjölmiðla eru nú í endurskoðun hjá lögreglunni.
Lögreglan hafði afskipti af samkomu í Ásmundarsal í Reykjavík á Þorláksmessu. Þar voru 40-50 manns saman komnir. Í dagbókarfærslu lögreglunnar á aðfangadagsmorgni, kom fram að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið í samkvæminu, og vakti sú upplýsingagjöf mikla athygli, enda óvenjuleg. Seinna þann morgun staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að hann hefði verið í samkvæminu. Ásmundarsalarmálið er enn til meðferðar hjá lögreglu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafa nú báðar staðfest við fréttastofu, að þær hafi talað saman um málið á aðfangadag.
Engar athugasemdir við framkvæmdina
Í skriflegu svari við nokkrum ítrekuðum spurningum fréttastofu um málið segir Halla Bergþóra aðeins þetta:
Við Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddum tvisvar saman í gegnum síma um málið sem kom upp í Ásmundarsal í desember. Bæði samtölin sneru að upplýsingagjöf lögregluembættisins og hvernig að henni var staðið.
Áslaug Arna segir í svari sínu að sér hafi á aðfangadag borist spurningar, meðal annars frá fjölmiðlum, og hún hafi því hringt í lögreglustjórann til að spyrja um verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglunnar og persónuverndarsjónarmið. Hún hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmd lögreglunnar í málinu.
Þegar Áslaug Arna er spurð hvort hún hafi rætt um önnur mál sem eru til rannsóknar hjá lögreglunni við lögreglustjórann, eða hvort þetta hafi verið einsdæmi, svarar hún:
Ég er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og því kemur það oft í minn hlut að svara spurningum sem varða störf hennar. Mér þykir mikilvægt að vera vel upplýst og í góðu sambandi við lögreglustjóra til að geta svarað fyrirspurnum frá almenningi og fjölmiðlum. Fyrir utan þessi samtöl sem ég átti vegna spurninga um verklag og upplýsingagjöf hef ég ekki rætt þetta mál við lögreglustjórann og ekki haft afskipti af rannsókn þessa máls eða annarra.
Lögreglunni þótti ekki tilefni til að tilkynna um samskipti ráðherra og lögreglustjóra til Ríkissaksóknara.
Rætt við starfsmenn
Aðspurð segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að upplýsingagjöf til fjölmiðla sé nú til endurskoðunar hjá embættinu. Svar Huldu Elsu við fyrirspurn fréttastofu er svohljóðandi:
„Í kjölfar vitneskju um mögulegan misbrest á miðlun upplýsinga þann 24. desember sl., lagðist embættið í skoðun á því hvort umrædd dagbókarfærsla myndi teljast til öryggisbrests í skilningi persónuverndarlaga. Var það niðurstaða embættisins að ekki hafi verið tilefni til að líta svo á að um öryggisbrest hafi verið að ræða sem tilkynningarskyldur væri til Persónuverndar, þegar horft sé til eðlis upplýsinganna. Umfjöllunin gefi þó tilefni til að endurskoða og skýra betur það viðmið sem embættið setur varðandi miðlun að frumkvæði þess. Fyrir liggur að verklagsreglur embættisins um samskipti lögreglu við fjölmiðla verði uppfærðar og er sú vinna hafin.
Rætt hefur verið við þá starfsmenn sem koma að gerð dagbókarfærslna og áréttað þær reglur sem í gildi eru varðandi fjölmiðlasamskipti með það að markmiði að tryggja að persónugreinanlegar upplýsingar fari ekki frá embættinu.“