Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er þreklaus og hefur hvorki lyktarskyn né bragðskyn, þremur mánuðum eftir að hann smitaðist af COVID-19.
„Ég er ennþá að fást við nokkra erfiðleika. Ég er ekki með neitt lyktarskyn og ekkert bragðskyn. Þrekið er ekki komið aftur að fullu. Það er eitt og annað líkamlegt sem hefur áhrif á mig ennþá. Í dag eru liðnir þrír mánuðir síðan ég smitaðist. Ég mæli ekki með því við neinn að fá þetta,“ sagði Víðir á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.
Víðir greindist með COVID-19 í lok nóvember og veiktist þó nokkuð mikið. Hann fékk slæma lungnabólgu og var í virku eftirliti á COVID-göngudeild Landspítalans. Hann hefur sagt að það hafi samt ekki síður verið andlegt áfall að smitast.