Migið á skítandi mann, niðurvald, afbitinn skítafýluhnúður og tussuduft eru orð og frasar sem aðdáendur menningarþáttarins Konfekt þekkja, og eru líklega líka minnisstæðir þeim sem höfðu andstyggð á honum á sínum tíma. Þættirnir vöktu hörð viðbrögð þegar þeir voru frumsýndir á Skjá einum fyrir tuttugu árum en atriði úr þeim eru enn í miklum metum í dag hjá þeim landsmönnum sem aðhyllast óhefðbundinn húmor.

Í febrúar árið 2001,  þegar sjónvarpsstöðin sáluga Skjár einn var upp á sitt besta, var kynntur til sögunnar nokkuð óvæntur dagskrárliður sem kom mörgum áhorfendum í opna skjöldu. Þátturinn kallaðist Konfekt og var lýst í kynningu þáttarins sem menningar- og listaþætti.

Viðtökurnar voru ekki dræmar en slæmar til að byrja með og margir kvörtuðu yfir orðbragði og efnistökum. En einhverjum árum síðar var brotum úr þáttunum hlaðið upp á Youtube og nú hefur þátturinn öðlast hálfgerða költ-stöðu í íslensku gríni og atriðin lifa góðu lífi. Umsjónarmenn þáttarins, þeir Henrik Baldvin Björnsson og Barði Jóhannsson kíktu í Lestina á Rás 1 og rifjuðu upp söguna á bak við Konfekt á tuttugu ára afmælinu.

„Þeir hlógu en ég sagði ekki neitt“

Skjár einn hafði hafið göngu sína hálfu ári fyrr. Aðspurðir hvernig sjónvarpsstöðin hafi verið á þessum tíma svarar Henrik að bragði: „Ég hafði ekki hugmynd um það.“

Barði segir að það hafi verið keyrsla á sjónvarpsstöðinni og mikil hugmyndavinna í gangi um mögulega dagskrárliði. Ef hugmynd þótti góð, eða jafnvel alls ekkert svo góð, var henni nánast umsvifalaust hrint í framkvæmd. Hann hafði þá um skeið verið að semja ýmis stef fyrir stöðina svo hann tók þátt í ýmsum verkefnum þar á bæ. Þegar leitað var eftir hugmyndum að nýjum þáttum ákvað Barði að fá Henrik í lið með sér til að kynna hugmyndina að lista- og menningarþættinum Konfekt fyrir forsvarsmönnum stöðvarinnar. „Ég held þeir hafi haldið að þetta væri eitthvað allt annað en það varð. Mig grunar að þeir hafi haldið að við værum að fara að gera einhverja Spaugstofuþætti,“ segir hann.

Henrik man vel fundinn þegar Barði kynnti hugmyndina fyrst. „Þú varst að útskýra þættina og þér tókst að sannfæra þá um að þetta yrði eitthvað rosalega fyndið og skemmtilegt og að þeir myndu hafa gaman að þessu. Þeir hlógu voða mikið og voru spenntir. En ég sagði ekki neitt.“

„Okkur fannst vanta langar þagnir“

Upprunalega lá fyrir félögunum að gera eitthvað saman sem þeim fannst sjálfum skortur á í íslensku sjónvarpi. Þeim fannst þögn vera á meðal þess sem væri á undanhaldi í línulegri dagskrá. „Á þessum tíma fannst okkur flest sem var í sjónvarpi frekar lélegt og okkur fannst vanta eitthvað þar sem sást í konfektið. Okkur fannst vanta langar þagnir. Því hafði ekki verið mikið sjónvarpað síðan skák var lýst,“ segir Barði.

Auk langra þagna var sumt í þáttunum spilað aftur á bak, sem er viss miðlunarleið sem dagskrárgerðarmönnum fannst líka kominn tími á að gefa meiri sess á skjánum.

Neituðu að vera brúnir og hressir í hópmyndatöku

Þegar Barði og Henrik voru beðnir um að taka þátt í flippaðri hópmyndatöku með öðru starfsfólki Skjás eins varð þeim ekki um sel. Þeir tóku það ekki í mál að stilla sér upp og brosa. „Það kom upp eitthvað atriði þar sem allir voru hressir og þess var ætlast til af okkur líka,“ segir Barði. Henrik tekur alvarlegur undir. „Með því að vera sminkaðir brúnir og eitthvað brosandi. Alveg ömurlegt. Við vorum beðnir um að taka þátt í þessu sem við að sjálfsögðu neituðum að gera.“

Mögulega versti þátturinn í sjónvarpi

Kolbrún Bergþórsdóttir var á meðal þeirra sem gagnrýndu þættina á sínum tíma. Hún skrifaði sjónvarpspistil þar sem hún lýsti því yfir að Konfekt væri versti þáttur sem hún hefði séð á Skjá einum, mögulega sá versti sem hún hefði séð í sjónvarpi. Og hún var ekki ein um þá skoðun. „Ég held að símkerfið hafi hrunið út af kvörtunum,“ segir Barði. Henrik segir þó að þótt viðbrögðin hafi verið slæm hafi þau glatt þá félaga. „Ég fann fyrir því hvað öllum fannst þetta ömurlegt.“

Áhorfendur áttuðu sig ekki á því hvort þeir ættu að hlæja þegar þátturinn fór fyrst í loftið eða hvort hér væri alvara á ferðinni. Barði segir að fólk hafi á þessum tíma verið vant því að horfa á línulega dagskrá og alltaf gengið út frá skýrum merkimiðum þátta og kvikmynda sem segði til um hver viðbrögð þeirra ættu að vera. „Þeim er sagt: Nú er að koma skemmtiþáttur og þá veistu að þú átt að hlæja. Svo er sagt: Nú er að koma spennumynd, og þá veistu að þú átt að vera spenntur yfir henni. En þarna er að koma listrænn þáttur...“ Og fólk vissi hreinlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Horfðu mikið á Twin Peaks

Húmor á Íslandi hafði þó verið að þróast í átt að aðeins súrara gríni árið áður, til dæmis með tilkomu Fóstbræðra. Barði og Henrik gengu svo enn lengra í sínum þætti. Þeir segjast þó ekki hafa haft neinar fyrirmyndir eða áhrifavalda úr sjónvarpi nema þá kannski Twin Peaks eftir meistara hins skrýtna og óræða, David Lynch.

Til fyrirmyndar að mæta til að segjast ekki vilja taka þátt

Þeir stóðu fyrir leiklistarprufum fyrir þættina sem fórur fram með nokkrum skrautlegum uppákomum. Minnisstæður var sérstaklega maður sem skráði sig í prufurnar en virtist ekki hafa nokkurn áhuga á þátttöku.

„Það var einhver sem mætti í prufuna og sagðist ekki vilja leika í sjónvarpsþætti,“ rifjar Barði upp. „Einmitt, ég var búinn að gleyma þessu,“ segir Henrik. „Það var mjög áhugavert,“ heldur Barði áfram.

Maðurinn var spurður þegar hann mætti í prufuna hvort hann hefði áhuga á að leika í þáttum yfir höfuð. Hann svaraði því neitandi. Hann var þá spurður hvort hann hefði áhuga á að leika í svona þáttum og hann svaraði: Nei, ekkert sérstaklega. „Þetta fannst mér eiginlega algjör snilld og hefur alltaf langað að gera síðan. Fannst til fyrirmyndar hjá honum að mæta bara til að segjast ekki vilja taka þátt.“ Þeir fengu loks leikfélag Mosfellsbæjar til liðs við sig til að leika í atriðunum sínum. „Þau voru alveg frábær. Þau voru algjörir meistarar,“ segir Barði.

Migið á skítandi mann og tussuduft

Einhverjum fannst þættirnir góðir þó það hafi verið nokkuð lágvær minnihluti. Og sem fyrr segir eru þættirnir í miklum metum hjá mörgum enn í dag og hafa jafnvel verið að sækja sig veðrið á Youtube.

Vinsælustu atriðin sem þar er hægt að nálgast bera titla á borð við Migið á skítandi mann, Svínavatn, Niðurvald og Tussuduft. Atriðin eru öll með fjölmargar spilanir og þáttastjórnendur lenda báðir oft í því að vitnað sé í þættina við þá. „Enn þann dag í dag gerist það, mjög oft, að einhverjir þekki eitthvað úr Konfekt eða tali um að það hafi haft veruleg áhrif. Kannski þetta eina prósent sem fílaði það þegar það var sýnt,“ segir Barði.

„Mér finnst ekkert fyndið við Konfekt“

Það sem fólk man helst þegar þættirnir eru rifjaðir upp eru orð eins og niðurlag og haus, en atriðið sem er líklega þekktast úr þáttunum er Tussuduft.

Það myndskeið hefur verið spilað hátt í hundrað þúsund sinnum síðan því var hlaðið inn sem er að meðaltali um tuttugu sinnum á dag. Atriðið sýnir eldri konu sem hringir í son sinn og biður hann að fara út í búð fyrir sig, en hlutirnir á innkaupalistanum eru óvenjulegir og eiginlega illskiljanlegir, t.d. hnakkafýlupate, hanskafýluolía og afskornir truntupussustrimlar.

En ætli það séu einhver sérstök atriði eða hlutir úr þáttunum sem þeim finnst sjálfum enn fyndnir? „Mér finnst ekkert fyndið við Konfekt,“ segir Barði að lokum. „Þetta er ekki grín, það er á hreinu,“ svarar Henrik.

Kristján Guðjónsson ræddi við þáttastjórnendur Konfekts í Lestinni á Rás 1.