Á fimmta tug manna hafa nú réttarstöðu sakbornings vegna vændiskaupa á höfuborgarsvæðinu eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar í desember. Fylgst var með auglýsingum 11 vændiskvenna í nokkrar vikur. Engin kvennanna sagðist vera fórnarlamb mansals í skýrslutöku hjá lögreglu. Sakborningar eiga yfir höfði sér sektir og eða dóm eftir alvarleika brotanna. 

Í desember síðastliðnum réðst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í umfangsmiklar aðgerðir við að kortleggja framboð á vændi. Leitað var að auglýsingum hjá meintum vændiskonum og unnið út frá þeim.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi segir að á fimmta tug manna hafi nú réttarstöðu sakbornings.

„Það voru einhverjir handteknir í þessum aðgerðum, en ég er því miður ekki með tölurnar á því en það voru ekki margir. Yfirheyrslur yfir þessum mönnum sem njóta réttarstöðu sakbornings eru nú á lokametrunum.“

Málunum lyktar með sektum og eða dómi eftir alvarleika brota.

„Þetta voru 11 auglýsingar sem við fylgdum eftir. Við ræddum við nokkrar af þeim konum sem að voru á bak við þær auglýsingar. Engin þeirra taldi sig í viðtölum við lögreglu vera fórnarlamb eins né neins og ekki fórnarlömb mansals og allar neituðu því að einhver þriðji aðili væri að hagnast á þeirra starfsemi. Þær sögðust allar vera hér af fúsum og frjálsum vilja. Og þær sem við töluðum við þær viðurkenndu allar að vera hér til þess eins að stunda vændi. Þær voru allar af erlendu bergi brotnar þær sem við töluðum við.“

Lögreglan fer reglulega í aðerðir sem þessar til að fylgjast með málum.

„Og við munum alveg klárlega halda því áfram efir því sem fram vindur.“