Fjöldi á biðlista eftir meðferð átröskunarteymis Landspítalans sjöfaldaðist á fjórum árum. Ástæður þess eru meðal annars aukin þörf fyrir þjónustuna og mygla, sem kom upp í húsnæði deildarinnar, en í kjölfar hennar varð hluti starfsfólks óvinnufær. Teymisstjóri segir að löng bið eftir aðstoð geti aukið á sjúkdóminn.

Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata segir að alls hafi 490 fengið þjónustu deildarinnar undanfarin fimm ár, þar af eru 430 konur. 80% þeirra sem leita til teymisins eru 20-29 ára og Sjúkratryggingar hafa greitt meðferð erlendis fyrir fjóra.

Árið 2016 biðu tólf eftir meðferð að meðaltali í 2-4 mánuði en í fyrra var biðlistinn kominn upp í 84 og biðtíminn allt að 20 mánuðir.

María Þóra Þorgeirsdóttir, teymisstjóri átröskunarteymisins, segir að ástæðurnar fyrir þessari lengingu biðlista og fjölgun á þeim séu nokkrar. „Í fyrsta lagi kom upp mygla í húsnæðinu okkar á Hvítabandinu.  Það leiddi til þess að starfsfólk þurfti að fara í veikindaleyfi og að lokum þurftum við einfaldlega að flytja úr húsnæðinu. og fluttum í bráðabirgðahúsnæði á Kleppi og erum ennþá einu og hálfu ári síðar að bíða eftir húsnæði sem hentar teyminu. Þar að auki hefur verið skorið niður í teyminu.“

María segir að óskandi væri að málin leystust sem fyrst. „Það er auðvitað einlæg ósk okkar að málin leysist sem fyrst. Því að meðan fólk bíður, þá veikist það auðvitað meira. Og þegar það loks kemst inn til okkar, þá þarf oft að vinna meira í vandanum, það tekur lengri tíma.“

María segir að vandi þeirra sem leita til teymisins sé oft orðinn alvarlegur og að hátt í tíu leggist inn á ári vegna átröskunar. 

„Við mættum hafa fleiri pláss fyrir þannig einstaklinga. En það er okkar mat að biðlistalengingin muni ekki lagast fyrr en við fáum aukna mönnun og húsnæðisvandann í lag.“