Dómsmálaráðherra fékk í morgun afhentar 45.000 undirskriftir gegn brottvísun Uhunome Osayomore, 21 árs gamals manns frá Nígeríu, úr landi. Hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi en bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa synjað þeirri ósk og því bíður hans brottvísun úr landi.
Kærunefnd útlendingamála telur að Osayomore geti ekki talist flóttamaður, þar sem honum hafi ekki tekist að sanna að hann eigi á hættu að verða ofsóttur í Nígeríu, þá sé ekki hægt að veita honum vernd á grundvelli heilsufarsástæðna þar sem hann gæti sótt þá þjónustu heima fyrir. Lögmaður hans telur málsmeðferðinni hafa verið ábótavant, ekki fari á milli mála að Osayomore hafi verið seldur mansali.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði í morgun að alltaf væri verið að skoða hvernig hægt sé að gera kerfið betra. „Það hefur verið þannig þó að ráðherra taki aldrei ákvörðun um einstök mál, enda er þetta eins og önnur mál í ferli og fer tli sjálfstæðrar kærunefndar útlendingamála,“ sagði Áslaug Arna í samtali við Ingvar Þór Björnsson fréttamann í morgun.
Þeir Ívar Pétur Kjartansson og Tómas Manoury afhentu ráðherra undirskriftirnar í morgun fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Tómas segir að þeir voni að dómsmálaráðherra grípi inn í og að þetta einstaka dæmi verði til þess að verklagi hjá stjórnvöldum verði breytt. Það hafi verið erfitt fyrir Osayomore að segja sögu sína opinberlega enda hafi hún verið honum mjög erfið.
Það er ekki óskastaða Osaymomore né aðstandenda hans að koma fram í fjölmiðlum, segir Ívar Pétur. Það sé lokaúrræði, segir hann og ítrekar að það sé erfitt fyrir vin þeirra að rifja aftur og aftur upp erfiða lífsreynslu sína.