Töluverð forföll urðu á hjúkrunarheimilum eftir að starfsfólk var bólusett gegn COVID-19 í síðustu viku. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á heilsugæslunni segir það hafa komið á óvart hversu margir tilkynntu veikindi.

1.200 starfsmenn hjúkrunarheimila voru bólusettir með bóluefni AstraZeneca á fimmtudaginn, en það var í fyrsta skipti sem bóluefnið var notað hér á landi. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir bólusetninguna ekki hafa gengið eins vel og búist var við, margir fundu fyrir flensueinkennum í kjölfarið og komust ekki til vinnu daginn eftir.

„Þetta var töluverður fjöldi og ekki gott ástand á heimilunum á föstudaginn. Þannig að nú tökum við nýtt plan og ætlum í þessari viku ekki að bólusetja jafn marga á hverju heimili fyrir sig og dreifa þessu betur,“ segir Ragnheiður.

Bóluefni AstraZeneca er einungis notað fyrir fólk yngra en 65 ára og þá eru þrír mánuðir látnir líða á milli fyrri og seinni skammts af efninu. Heilsugæslan og hjúkrunarheimilin vinna nú að því að leggja mat á hversu margir urðu veikir í kjölfar bólusetningarinnar á fimmtudaginn.

​​​​​​„Þetta virðist vera þannig að fyrri skammturinn í AstraZeneca er að gefa meiri einkenni en aftur á móti síðari skammturinn hjá Pfizer og Moderna og þetta er líklega samkvæmt öðrum rannsóknum. En við áttum samt ekki von á svona miklum einkennum af AstraZeneca,“ segir Ragnheiður.