Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan í handbolta, safnar nú kröftum á Íslandi eftir langa törn í tengslum við HM í Egyptalandi. Fram undan er svo langur undirbúningur fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Dagur segist hjóla mikið um í Tókýó og njóta þess að borða góðan mat milli þess sem hann heldur lærisveinum sínum við efnið

Dagur Sigurðsson kemur vel undan langri törn sem fylgdi heimsmeistaramótinu í Egyptalandi. Japanir mættu fyrstir liða til Egyptalands til undirbúnings, en höfðu æft vikurnar á undan í Japan. En gat Dagur þá haldið sómsamlega upp á jólin?
„Nei, ég var bara í mötuneytinu í Japan þá. Við æfðum þann 24. og þann 25. og svo æfðum við á gamlársdag og nýársdag þannig að það var bara engin miskunn,“ segir Dagur.

Var fjölskyldan bara á Skype í tölvunni yfir matnum?
„Já, bara eins og venjulega. Þetta var bara mjög skrítið, síðustu árin hafa þau komið út til mín um jól en ég var bara einn núna en börnin eru nú orðin fullorðin þannig að þetta var bara eins og hjá mörgum svona skrítin covid jól sko,“ segir Dagur.

Ekki búinn að sjá æðiskastið hans Guðmundar

Hvernig fannst þér mótið ganga hjá ykkur?
„Mér fannst það ganga frábærlega ég var rosalega ánægður með liðið, ég var svo ánægður með að það var enginn slakur leikur. Það gerði mig hvað stoltastan, við fengum aldrei neinn skell og vorum inni í öllum leikjum og svo náðum við frábærum úrslitum, það er alltaf rosa gaman,“ segir hann.

Náðiru eitthvað að fylgjast með íslenska liðinu á mótinu?
„Ég bara sá úrslit og svo sá ég æðiskastið, eða ég er ekki búinn að sjá æðiskastið hans Guðmundar, en hérna las aðeins í kringum það en annars bara sá ég ekki leikina og hef lítið um það að segja sko.“

En Japan endar ofar en Ísland, gerði það eitthvað fyrir þig?
„Já, það var bara ákveðið „kikk,“ að enda fyrir ofan Ísland á stórmóti með japanska liðið, ég verð alveg að viðurkenna það. Þegar ég kom inn í klefa eftir leikinn og fattaði það að þetta lyfti okkur upp fyrir Íslendingana,“ segir Dagur.

Ótrúlegt flækjustig á Ólympíuleikunum í sumar

Halda átti sumarólympíuleikana í Tókýó í Japan í fyrra. Leikunum var frestað þar til í sumar vegna COVID-19. En heldur Dagur, með sín sterku sambönd í Japan að Ólympíuleikarnir verði þar í sumar?

„Ég hef trú á því, ég hafði það ekki í fyrra en ég hef trú á því núna að það verði reynt að búa til þessa búblu, þó þetta sé miklu flóknara en eitt svona mót. Það eru ótrúlega margar byggingar sem eru teknar undir Ólympíuleikana þetta er ekki bara stóri völlurinn og ein höll, það eru mörg hunduð byggingar sem eru notaðar undir Ólympíuleikana. Fótboltinn er út um allt land og þetta er gríðarlega flókið og svo er fjarlægðin frá Ameríku og Evrópu risastórt vandamál, það er að segja tímamismunur. Liðin þurfa væntanlega að koma svona viku fyrir mót til þess að jafna sig á tímamismun, hvar ætlaru að hafa liðin þá. Það er ekki pláss inn í þorpinu fyrir alla á sama tíma, liðin geta ekki verið mikið lengur en þau eru, það eru ótrúleg flækjustig en samt er mín tilfinning þannig að mótið verði,“

Hjólar, borðar góðan mat og stofnar fyrirtæki í hausnum

Hvernig nýtiru tímann að öðru leyti, þetta er náttúrulega mikill biðtími að öðru leyti, þegar þú ert endalaust á flakki?
„Þegar ég er í Japan reyni ég allavega að hugsa vel um mig og hreyfa mig og borða góðan mat og njóta lífsins með mitt reiðhjól sem bíður eftir mér. Svo hjóla ég töluvert í borginni og eins og staðan er núna í þessu Covid er maður lítið að nota almenningssamgöngur og ég fer miklu minna á veitingastaði og kaffihús. Þá er ég bara að reyna að hjóla um borgina og nýta góða veðrið og svo er ég bara í minni vinnu,“ segir Dagur.

En hvernig er með afþreyingu?
„Ég hef aldrei verið í vandræðum með það að drepa tíma. Ég stofna þá einhver fyrirtæki í hausnum og fer í alls konar hrókeringar og hringi í mennina og sendi pósta og er bara eitthvað svona að vitleysast sko,“ segir Dagur Sigurðsson léttur að lokum.

Viðtalið við Dag má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.