Þegar Helen María Ólafsdóttir spurði kollega sína og íbúa í Sómalíu út í COVID-19 faraldurinn voru svörin á þá leið að lífið þyrfti að hafa sinn gang. Fólk treystir á vilja guðs og skilur ekki þá áráttu Vesturlandabúa að vilja lifa að eilífu.
Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin er nýr þáttur í umsjón þeirra Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur og Loga Pedro sem fjallar um áhrif heimsfaraldurs á aðra heimshluta. Á meðal viðmælenda eru Helen María Ólafsdóttir, sérfræðingur í öryggismálum og þjóðaröryggi, og Ívar Schram, verkefnisstjóri hjá IFRC í Georgíu.
Helen hefur unnið að uppbyggingu öryggis víða um heim, meðal annars í Súdan, Suður-Súdan og Líbýu. Hún býr og starfar í Mogadishu í Sómalíu en dvaldi á Íslandi um skeið vegna COVID-19-faraldursins. Helen hefur nú snúið aftur til Sómalíu. Hún segir mörg ríki glíma við stórar áskoranir sem geri það að verkum að COVID-faraldurinn nánast blikni í samanburði. „Þegar ég sný aftur til vinnu eftir að hafa verið hér í svolítið vernduðu umhverfi, blasir við mér mökkfullur flugvöllur í Eþíópíu. Allir með grímur, grímuskylda, en lífið gengur sinn vanagang,” segir Helen.
Klerkanir í Sómalíu hafa minnt íbúa landsins á faraldurinn og að fólk þurfi að passa upp á að vera ekki í miklu samneyti og mikilvægt sé að vernda eldri borgara. Þrátt fyrir viðvaranir klerkanna er faraldurinn ekki ofarlega á baugi hjá íbúum. Þegar Helen fór aftur til Sómalíu eftir að hafa dvalið á Íslandi spurði hún marga út í faraldurinn þar í landi og fólk sagðist halda að hann væri útbreiddur, en hafði þó enga vissu. „Það er engin tölfræði sem við getum reitt okkur á til þess að átta okkur á hversu útbreitt þetta var eða hversu margir dóu,” segir Helen
Í Sómalíu eru náttúruhamfarir tíðar, mikil hernaðarátök og stöðug ógn af hryðjuverkum. Heilbrigðiskerfið virkar ekki, barnadauði er tíður og sjúkdómar daglegt brauð. Sé allt sem ógnar lífi fólks tekið saman er ekki erfitt að sjá hvernig COVID bliknar í samanburðinum. Helen segir þetta hafa áhrif á samband fólks við dauðann. Þegar hún spurði eina stelpu hvort hún væri búin að breyta sínu lífsmynstri til að vernda ömmur og afa fékk hún svarið Inshalla, sem þýðir guðs vilji. „Annar kollegi sagði mér: „Vandamál ykkar Vesturlandabúa er að þið viljið lifa að eilífu.” Þetta er annað samband við dauðann sem er svolítið athyglisvert. Það hefur ekki efni á því að missa lífsviðurværið. Það er ekki þessi hjálp frá hinu opinbera, með engum hætti er það hægt. Þar af leiðandi er þetta kannski ekki val þarna niður frá,” segir Helen.