Samheitalyfjafyrirtækið Alvotech stefnir á að setja nýtt líftækni-samheitalyf á markað innan tveggja ára. Róbert Wessman stofnandi og forstjóri Alvotech segir stefna í að útflutningstekjur fyrirtækisins muni nema um 20 prósentum vergrar landsframleiðslu innan fárra ára. Hann segir ólíklegt að Ísland geti gengið út úr evrópska bóluefnasamstarfinu.
Róbert var gestur Kastljóss í kvöld.
Róbert segir að sú ákvörðun lyfjafyrirtækisins Pfizer um að ekki yrði af fjórða fasa rannsókn á virkni kórónuveirubóluefnis þess hér á landi hefði ekki komið sér á óvart. Ef gera hefði átt slíka tilraun, hefði það þurft að gerast fyrr. Nú sé Ísland búið að semja um afhendingu bóluefna í gegnum ESB, erfitt sé að reyna að stytta sér leið í röðinni nú. Þá hefði hagur Pfizer af rannsókninni verið takmarkaður.
Róbert segir ólíklegt að Ísland geti gengið út úr evrópska bóluefnasamstarfinu. „Ísland er lítil þjóð, Pfizer er stærsta lyfjafyrirtæki í heimi og þarf að gæta þess að taka ekki einn fram yfir annan. Ég held að það sé of seint. Við þurfum bara að sætta okkur við að það er röð þarna.“
Erum í aðstæðum sem við höfum ekki lent í áður
Að mati Róberts gætu tíðindi af aukinni framleiðslu á bóluefnum breytt stöðunni hratt. Spurður hvort hann telji að íslensk stjórnvöld hafi nýtt tengsl Íslendinga inn í lyfjageirann nægilega vel svaraði Róbert að mikilvægt væri að hafa í huga að við værum í aðstæðum sem við hefðum aldrei lent í áður. Ísland væri lítill markaður sem hefði lítið vægi í alþjóðlegu samhengi, öll lönd hefðu hagsmuna að gæta. „Það að litla Ísland hefði getað hringt í vini okkar hjá Pfizer og fengið eitthvað fyrr, það er ég ekkert viss um,“ segir Róbert. „Þetta var frábær hugmynd, en hún hefði þurft að koma fyrr, þegar það var meira af virkum smitum í landinu.“
Róbert segir að framtíðarsýn Alvotech, sem var mótuð árið 2012, hafði falið í sér að frá árinu 2020 yrðu öll „stóru lyfin“ líftæknilyf og að Alvotech myndi framleiða hliðstæðulyf þeirra þegar einkaleyfið rynni út. „En gallinn er sá að þau kosta miklu meira, það er ekki á færi allra að kaupa þessi lyf. Í Bandaríkjunum getur gigtarlyf kostað einstakling 50-100.000 dollara á ári.“
Fyrst til að fá leyfi til að framleiða mest selda lyf í heimi
Alvotech hefur nú, fyrst samheitalyfjafyrirtækja, sent inn til skráningar í Bandaríkjunum samheitalyf líftæknigigtarlyfsins Humira. Það er mest selda lyf í heimi, í Bandaríkjunum veltir sala lyfsins 15-16 milljörðum bandaríkjadollara á ári. Þá hefur Alvotech tryggt sér langtímasamstarfssamninga við ýmis samheitalyfjafyrirtæki víða um heim, m.a. í Asíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Evrópu. „Þannig að þegar við erum klár í að framleiða, þá fer lyfið á markað allsstaðar.“
Lyfið verður framleitt í nýju húsnæði fyrirtækisins í Vatnsmýri. Spurður hvað það þýði í fjárhagslegu samhengi segir Róbert að fjárfestingar Alvotech hér á landi nemi talsvert meira fé en kostnaði við nýjan Landspítala. Í dag er Alvotech með sjö samheitalyf í þróun sem áætlað er að koma á markað um leið og einkaleyfi þeirra renna út.
Það tekur 7-8 ár að þróa hvert lyf og kostar okkur um 20 milljarða króna að þróa hvert einasta lyf, segir Róbert.
Hann segir að gangi áætlanir eftir gæti framleiðsla Alvotech orðið ein af lykilstoðum gjaldeyrisöflunar þegar árin 2026-'27. Því til viðbótar megi búast við að fyrirtækið skili um 15-20 milljörðum í skatta og skyldur.