Sonur Evu Hauksdóttur, Haukur Hilmarsson, er talinn hafa farist í loftárás í Sýrlandi fyrir tveimur árum. Engar jarðneskar leifar hafa þó fundist af Hauki og enn í dag kviknar stundum vonarneisti hjá móður hans um að hann sé á lífi einhvers staðar. En sá neisti lifir aldrei lengi.
Eva Hauksdóttir hikar ekki við að setja fram beittar skoðanir og synda gegn straumnum ef svo ber undir. Hún hefur kallað sig norn og aðgerðasinna og var framarlega í flokki þeirra sem mótmæltu hvað ákafast í búsáhaldabyltingunni. Sonur hennar, Haukur Hilmarsson, var líka áberandi í hvers kyns byltingu alla tíð en hans hefur verið saknað í tæp tvö ár. Talið er að hann hafi fallið í sprengjuárás í Sýrlandi þar sem hann barðist með Kúrdum. Eva er gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli í kvöld. Hún segir frá sjálfri sér, hugsjónum sínum og syninum Hauki Hilmarssyni.
Flókið að kveðja þegar ekkert lík finnst
Engar jarðneskar leifar hafa fundist af Hauki síðan hann er talinn hafa farist. Varnarsveitir Kúrda gáfu það út að Haukur hefði farist í árás Tyrklandshers þann 24. febrúar 2018 en heimildum ber ekki öllum saman um hvað gerðist eða hvenær. „Við vitum ekki meira. Þau hleyptu aldrei neinum mannréttindasamtökum á svæðið til að leita að líkum,“ segir Eva.
Það er erfitt að kveðja ástvin sem aldrei finnst en Eva segir að hún sé ekki ein um að ganga í gegnum slíka reynslu. „Margir Íslendingar hafa farið í sjóinn, margir týnst á hálendinu svo mér finnst ég ekkert vera ein um þessa reynslu að það sé ekkert lík. En hún er flókin og það gerir það öðruvísi að komast í gegnum þetta.“
„Tilfinningar eru ekki alltaf rökréttar“
Og stundum finnur hún örlítinn vonarneista um að það sé mögulegt að hann sé enn á lífi en hann varir sjaldan lengi. „Þegar ég hugsa það rökrétt þá nei, hann væri búinn að hafa samband. Ég held það séu ekki neinar líkur á því en tilfinningar eru ekki alltaf rökréttar og það koma dagar þegar maður fyllist órökréttri von. En ég staldra ekki við það,“ segir hún.
Gagnrýnd fyrir að fara ekki sjálf út að leita
Það fór mikil orka í það hjá vinum og fjölskyldu Hauks að fá upplýsingar frá samherjum hans og púsla því saman sem gerst hafði. Margir vildu jafnvel fara út að leita sjálfir að honum en það hefði verið illmögulegt. Eva lenti samt í að vera gagnrýnd fyrir að fara ekki sjálf út að leita að honum.
„Ég hef meira að segja fengið það framan í mig hvers kona móðir ég sé að hafa ekki farið að leita að honum,“ segir Eva. „Hvar átti ég að leita? Og hvað ef ég hefði fundið eitthvað? Ef ég hefði fundið mannabein, átti ég að taka þau í ferðatösku og fara með á lögreglustöðina í Reykjavík?“
Hún segir auk þess algjörlega útilokað að henni hefði verið hleypt inn á svæðið þar sem Haukur er talinn hafa fallið. „Fyrst Rauði krossinn fær ekki að fara inn þá eru engar líkur á að þau hefðu hleypt einhverjum vinum Hauks þangað.“
Sigmar Guðmundsson ræðir við Evu Hauksdóttur í Okkar á milli sem er á dagskrá í kvöld kl. 20.