„Íslenska táknmálið er alveg sérstakt tungumál,“ segir Júlía Guðný Hreinsdóttir, fagstjóri táknmálskennslu hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hún segir að það sé misskilningur að táknmál sé alþjóðlegt og alls staðar eins.

„Sem dæmi þá stöfum við á Íslandi með annarri hendi en stöfunin í Bretlandi er tvíhandarstöfun. Það geta kannski verið samankomnir döff frá mörgum löndum og ég skil alls ekki alla þó að allir tali táknmál.“

Dagur íslenska táknmálsins er 11. febrúar og þó að samkomutakmarkanir hafi áhrif á öll hátíðahöld verður ýmislegt gert í tilefni dagsins. Meðal annars verður valið tákn ársins og meðal þeirra sem koma til greina eru covid, sóttkví, almannavarnir, samkomutakmarkanir og hlýði Víði. Þessi tákn má sjá í innslaginu sem fylgir í spilaranum að ofan.