Sigríður Lára Guðmundsdóttir íþrótta- og heilsufræðingur er ein af sex sérfræðingum sem skrifa í nýjasta tölublað Læknablaðsins og lýsa yfir áhyggjum sínum af því að fólk sem er að hreyfa sig taki út heilu fæðuflokkana eins og þegar fólk kýs háfitu-lágkolvetna fæði. Það geti haft slæm áhrif á heilsufar fólks og nýjar rannsóknir bendi til þess að háfitu-lágkolvetna mataræði geti dregið úr árangri í íþróttum.
Margir „sérfræðingar“ vilja gefa ráð
Rætt er við Sigríði Láru í Samfélaginu á Rás eitt. Sérfræðingarnir sex sem skrifa greinina saman í Læknablaðið eru næringar-, íþrótta- og heilsufræðingar. Sigríður Lára er dósent við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands en er núna stödd í Noregi þar sem hún er stundar rannsóknir.
Háfitu-lágkolvetnafæði hefur notið vinsælda undanfarið og er oft fullyrt að það sé heilsubætandi og að það bæti frammistöðu íþróttafólks. Á undanförnum árum hefur orðið sprenging í þátttöku fólks í almenningsíþróttaviðburðum. Fólk tekur þátt í keppni sem krefst úthalds eins og Laugavegshlaupið, Bláa Lóns hjólreiðakeppnin, Fossavatnsgöngu og Urriðavatnssundi svo nokkuð sé nefnt. Fleiri hundruð prósenta aukning hefur verið í þessum viðburðum. Sigríður Lára segir að megnið af þeim sem taki þátt sé miðaldra fólk. „Þetta er ekki afreksíþróttafólkið okkar unga sem er búið að byggja sig upp yfir lengri tíma og er í skipulögðu íþróttastarfi undir ÍSÍ. Heldur er þetta bara ólíkir hópar fullorðins fólks sem tekur þátt.“ Það sé mjög jákvætt en nú er farið að bera á því að í þessum hópi sé fólk sem stundi mikla og krefjandi þjálfun. Fólk sé farið að prófa sig áfram með mataræði sem ekki hafi verið hugsað fyrir þennan hóp. Spyrja megi hvort það sé æskilegt fyrir fólkið að breyta mataræði sínu með svona drastískum aðferðum. „Við heyfum okkur öll og við nærumst öll og þess vegna eru alveg óskaplega margir „sérfræðingar“ þarna úti.“
Háfitu-lágkolvetna mataræði ekki fyrir alla
Hér áður fyrr var fólki sem stundaði íþróttir ráðlagt að borða mikið af kolvetnum. Sigríður Lára segir að það hafi breyst og íþróttamönnum sé nú ráðlagt að tryggja nægilegt aðgengi að kolvetnum til að mæta þörfum sínum.
Vinsældir háfitu-lágkolvetna mataræðis hafi síðan komið í bylgjum aftur og aftur. Margir telji þá að slíkt mataræði geti hentað þeim. Háfitu-lágkolvetna mataræði geti átt rétt á sér upp að vissu marki. Það geti hentað sumum, til dæmis þeim sem æfa eða keppa í greinum sem krefjast bara lítillar ákefðar.
Undanfarin ár hafi mikil áhersla verið á það hvað fólk eigi að borða ef það vill léttast en nú sé annað uppi á teningnum. „Og við sáum þegar við vorum að hlusta í kringum okkur að það virtist ekki vera alltaf á hreinu hvert markmiðið með ráðleggingunum var.“ Svo virðist sem að ráðleggingum sé blandað saman. Þeir sem vilji léttast og svo þeir sem vildu bæta frammistöðu sína séu farnir að nota sömu aðferðir. „Þarna var allt í einu farið að nota sumt af þessu fyrir hóp sem var í kjörþyngd og var að æfa mjög mikið og vildi kannski bæta frammistöðu sína í íþróttum. Það þarf kannski að hjálpa fólki að sortera.“
Nýjar rannsóknir
Sigríður segir að ef fólk sé að æfa mikið þá gangi háfitu-lágkolvetna mataræði ekki. Ef fara eigi upp fyrir 60 til 70 prósent af hámarks áreynslu sem eigi sér stað í öllum íþróttagreinum þá þurfi fólk kolvetnin. Ef fólk ætlar að fara upp brekku, taka fram úr einhverjum, taka endasprett þá þurfi fólk að geta gengið að kolvetnunum og þá þurfi það líka að vera búið að þjálfa líkamann í að ganga að kolvetnunum.
Komið hefur fram í rannsóknum að árangur þeirra íþróttamanna sem eru farnir að forðast kolvetni versni. Sigríður segir að enn þá séu ekki til langtímarannsóknir en nýjar rannsóknir hafi komið fram sem sýni þessar niðurstöður. „Og svona heilt yfir getum við sagt að það er ekkert sem bendir til þess að háfitu-lágkolvetna mataræði valdi miklum skaða hjá þessum íþróttamönnum. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að þetta sé frammistöðuaukandi.“
Og nýjustu rannsóknirnar sem komu fram hjá Burke og félögum í Ástralíu sýna að háfitu-lágkolvetna mataræði getur dregið úr árangri og frammistöðu hjá íþróttamönnum. Þátttakendur kepptu í göngu og fór frammistað þeirra, sem voru á lágkolvetna mataræði, dvínandi í samanburði við þá sem fylgdu hákolvetnamataræði.
„Okkur skortir að sjálfssögðu lengri tíma rannsóknir til þess að sjá hver eru heilsufarsleg og frammistöðu tengd áhrif svona mataræðis.“
Flestar rannsóknir gerðar á körlum
Sigríður leggur áherslu á að þær sem skrifi greinina í Læknablaðið séu ekki að tala til afreksíþróttafólks. Rannsóknir séu gerðar á ungu hraustu gjarnan karlkyns íþróttafólki sem er við góða beiheilsu og vöðvauppbygging góð. „Hópurinn sem við erum að tala til er venjulegt fólk komið hugsanlega á miðjan aldur þar sem við vitum að beinþéttnin er farin að minnka. Það styttist í hjá hluta af þessum hópi að hann komi inn á það aldursskeið þar sem vöðvamassi er byrjaður að rýrna. Og af því við sjáum, hjá hluta þessa hóps er svo ofboðslega mikil áhersla á að grennast, að það að minnka líkamsfituna er orðið svo ofboðslega mikil áhersla, að þá viljum við benda á það að þarna erum við komin hugsanlega inn á hættulegar slóðir.“
Ekki sé vitað hvaða áhrif það hefur að breyta mataræði, draga hratt úr þyngd samhliða mjög mikilli þjálfun, getur haft til lengri tíma. „En það eru vísbendingar um eins og við segjum svo skýrt í greininni að það hafi neikvæð áhrif á t.d. bein og vöðvamassa.“
Markaðsöflin sterkari en orð vísindamanna
Svo virðist sem hjá hluta þeirra sem stunda þessa miklu hreyfing sé svo mikil áhersla á að grennast að það verður til þess að fólk nærist ekki nóg. Sumir verði svo uppteknir af því að taka út ákveðnar fæðutegundir eða borða bara á takmörkuðu tímabili yfir daginn að það fái ekki nægjanlega orku til að næra æfingarnar sínar, endurheimtina eða þessar venjulegu líkamlegu þarfir. Og þetta getur haft misjöfn áhrif á karla og konur.
„T.d. við konur þurfum ákveðna orku til að halda frjóseminni gangandi. Til að framleiða kynhormón þurfum við að vera í góðu orkujafnvægi og ef við erum farin að skera mjög niður […] Og ef við erum farin að taka út heilu fæðuflokkana þá erum við hugsanlega farin að taka ákveðna áhættu með tilliti til þessara þátta.“
Heilmikill kynjamunur geti verið á þessu sem of lítið sé vitað um og þurfi að rannsaka mikið betur. Greinarhöfundum sé umhugað um að fólk fái réttar ráðleggingar sem hjálpi fólki að ná þeim markmiðum sem það hafi. „Teljið þið að fólk fái ekki réttar ráðleggingar? Ekki alltaf og ég held að markaðsöflin séu oft sterkari heldur en boðskapur okkar vísindamannanna af því okkur tekst kannski ekki alltaf að vera nógu söluvæn í því að koma boðskapnum okkar á “
Fólk tekur út heilu fæðuflokkana
Fjölmargir virðast tilbúnir til að gefa fólki ráð um betra mataræði. Sigríður Lára segir að miðaldra fólk sem stundi æfingar séu ekki á leiðinni á Ólympíuleikana og það geri því ekki mikið til ef það hlaupi aðeins hægar.
„En það er þetta með næringarástand fólks að maður er hugsi að fólk sé að taka út heilu fæðuflokkanna, taka út fæðutegundir, taka út t.d. trefjar.“ […] Maður hefur áhyggjur af því að þetta gæti hugsanlega leitt til þess að það kæmu fram neikvæð heilsufarsleg áhrif eins og við sjáum glöggt hjá unga íþróttafólkinu okkar sem fer í hlutfallslegan orkuskort og fær beinþynningu, fær þreytubrot, fær tíðarstopp, testosterón ójafnvægi hjá körlunum. Þetta er myndin sem við höfum áhyggjur af.“
Fólk eigi að spyrja sig hvers vegna það sé að breyta mataræði sínu. „Er það af því við ætlum að vera svo ofboðslega mjó og grönn eða er það fyrir heilsufarið okkar? Og enn og aftur þá komum við að markmiðinu. Af hverju erum við að þessu? Af hverju viljum við fara á keto og af hverju viljum við fara á low carb?“