Íslendingar eru almennt hreyfanlegri en norrænu nágrannaþjóðirnar, hafa flutt sig eftir vinnu, bæði milli landshluta og landa. Nýja breytan í dæminu er fjarvinna, sem hefur farið á flug í veirufaraldrinum, og sem gæti gert fólki auðveldara að flytja, hvort sem er úr landi eða úr þéttbýli í dreifbýli.
Íslendingar flytja frekar en norrænu nágrannarnir
Alveg síðan á 19. öldinni hafa Íslendingar flutt af landi brott eftir störfum og tækifærum, sem ekki buðust heima fyrir. Í fyrstu til Bandaríkjanna, Kanada og Brasilíu. Á 7. áratugnum til Ástralíu og Svíþjóðar. Síðan í bylgjum, næstum á hverjum áratug, mest til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Í samanburði við Norðurlöndin eru Íslendingar viljugir að flytja eftir vinnu.
Strax í upphafi veirufaraldursins blasti atvinnuleysi við
Þegar ljóst var að Covid-19 yrði farsótt í flestum löndum var því víða spáð að faraldurinn myndi leiða til aukins atvinnuleysis. Íslensku tölurnar sýna klárlega þá þróun. Nú er atvinnuleysi á Íslandi 10,7%, var vel innan við fimm prósent á árunum fyrir Covid. Atvinnuleysi meðal útlendinga, búsettra á Íslandi, er um 20 prósent.
Meira atvinnuleysi á Íslandi en í nágrannalöndunum
En aukning atvinnuleysis er ekki alls staðar svona mikil. Íslensku atvinnuleysistölurnar endurspegla hvað ferðaþjónustan vegur þungt í íslenskum þjóðarhag. Í Noregi hefur atvinnuleysi vissulega aukist um þriðjung, en úr lágum tölum, atvinnuleysi farið úr þremur prósentum í fjögur prósent.
Spurning hvort Íslendingar munu flytja erlendis eftir atvinnu
Sem er áhugavert í íslensku samhengi þar sem margir Íslendingar sóttu til Noregs í atvinnuleit eftir bankahrunið 2008. Og eins, atvinnuleysið á Íslandi bitnar mjög á útlendingum. Því ekki gefið að Íslendingar haldi utan í atvinnuleit. Og aðstaðan í heimalöndum útlendinga búsettra á Íslandi ekki góð, sem dregur úr líkum á að þeir snúi heim.
Jafnvel í góðærinu fluttu Íslendingar úr landi
Það er ýmislegt sem gerir mannfjöldaþróun eftir Covid mjög áhugaverða. Til dæmis áhugavert að sjá hvernig að- og brottflutningur þróast í ljósi þess að jafnvel í góðærinu undanfarin ár voru almennt fleiri Íslendingar að flytja út en heim.
Fjarvinna: nýja breytan eftir veirufaraldurinn
Fjarvinna hefur klárlega einkennt Covid-tímann. Kannski fjarvinnan sem fólk mun muna best þegar frá líður. Fyrir flesta var þetta alveg ný reynsla. Og þá einnig nýnæmi fyrir vinnustaði, hvort sem er einkafyrirtæki eða opinberar stofnanir, að skipuleggja sig upp á nýtt til að allt gengi snurðulaust.
Fjarvinna gekk vel því innviðirnir voru fyrir hendi
Það sem gerði þetta allt tiltölulega auðvelt var að allir innviðir voru fyrir hendi, hvort sem var tölvur til að nota heima eða breiðbandið. Fjarvinna er löngu þekktur kostur en yfirmenn fyrirtækja og stofnana almennt ekki trúaðir á gildi fjarvinnu. Þegar ekki var öðrum kostum til að dreifa kom í ljós að já, þetta var alla vega hægt. Vinnan gat malað áfram, í fjarvinnu.
Hver verða áhrif fjarvinnu eftir veirufaraldurinn?
Reynslan undanfarin ár sýnir að atvinnuleysi á Íslandi er ekki það eina, sem ýtir á fólk að flytja erlendis. Covid hefur einkum aukið atvinnuleysi í ferðaþjónstunni og tengdum greinum. En það má heyra að ýmsir hugleiða umskipti af því þeir hafa haft tíma til að hugsa málin í Covid-rólegheitunum. Og eftir Covid er fjarvinna ein breytan að reikna með varðandi búferlaflutninga.
Fjarvinna, en hvaðan?
En þá fjarvinna hvaðan? Það getur auðveldað brottflutning að fólki geti tekið vinnuna með til útlanda, þurfi ekki strax að finna vinnu. Það má einnig hugsa sér að útlendingar, sem eiga kost á fjarvinnu, taki vinnuna með sér til Íslands, vinni þaðan.
Fjarvinna og búferlaflutningar innan lands
Einn áhugaverður vinkill á fjarvinnu er möguleg áhrif á búferlaflutninga innanlands. Fólk hefur kannski ekki tekið eftir því en stjórnsýslunni á Íslandi hefur mánuðum saman verið stýrt úr stofum landsmanna, sagði einn viðmælandi Spegilsins. Það má því leika sér að þeirri hugmynd að fólk hugsi sér að flytja, ekki endilega til útlanda heldur til dæmis úr þéttbýli í dreifbýli.
Víða erlendis flytja nú fleiri frá stórborgum í minni byggðarlög
Miðað við höfuðborgarsvæðið er víða ódýrt húsnæði að hafa úti á landi. Með fjarvinnu er það raunhæfur kostur að flytja frá Reykjavík og út á land án þess að vera þá háður atvinnuframboði þar. Sama er að gerast víða erlendis. Í fyrsta skipti í þrjátíu ár stefnir í að íbúum London fækki. Könnun á vegum borgarráðsins í London í fyrrasumar sýndi að strax í fyrrasumar hugleiddu 14 prósent borgarbúa að flytja úr borginni vegna Covid. Hugsanlega styrkti Covid áhuga sem var þegar fyrir hendi.
Reynslan sýnir að Íslendingar eru óbangnir við að flytja. Fjarvinna er nú nýja breytan í brottflutningsdæminu, hvort sem er til útlanda eða innanlands.