„Hey, sjáið hvað við erum góð. Við erum með útlending hjá okkur,“ er viðhorf margra félaga og samtaka á Íslandi sem vilja sýna hve pólitískt rétthugsandi þau eru, án þess að vilja í raun nýta krafta útlendinganna sem þau státa sig af að hafa innan sinna raða. Þetta segir Lenya Rún Taha Karim laganemi sem hefur lent í því sem hún kallar tókenrasisma, meðal annars í Háskóla Íslands.

Í kvöld klukkan sex fer fram streymisviðburður sem nefnist Reynslusögur af rasisma. Viðburðurinn er á vegum háskólanna á Íslandi og er hluti af jafnréttisdögum. Þau Derek T. Allen frá samtökunum Black Lives Matter Ísland, Chanel Björk Sturludóttir framleiðandi og Lenya Rún Taha Karim laganemi svara spurningum um hvernig rasismi og hvít kynþáttahyggja birtist á Íslandi og hvaða áhrif það hefur á þolendur þess. Þau velta fyrir sér hvaða skref sé hægt að taka til að uppræta kynþáttafordóma í umhverfi okkar og hvað einkennir góðan bandamann. 

Alin upp af innflytjendum á Íslandi

Lenya Rún kom í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá viðburðinum og reynslu sinni af rasisma. Foreldrar hennar eru frá Kúrdistan en hún er fædd og uppalin á Íslandi. Móðir hennar flutti hingað til lands 1996 en faðir hennar þremur árum fyrr. Fjölskyldan flutti saman til Kúrdistan 2013 en aftur til Íslands þremur árum síðar. „Ég bý við þau forréttindi að ég fæddist og ólst upp hér á Íslandi og tala góða íslensku. En samt sem áður hef ég innflytjendabakgrunn líka,“ segir Lenya.

Ekki meðvituð um rasismann

Hún minnist þess að hafa stundum heyrt rasískt grín í æsku en fann aldrei fyrir miklum rasisma á eigin skinni þar til hún byrjaði í háskóla á Íslandi. Þeir fordómar sem hún fann fyrir þar voru miklir en hún áttaði sig á því að fólk sem gerði sig sekt um þá væri ekki endilega meðvitað um það. „Þess vegna finnst mér svo ótrúlega mikilvægt að streyma þessum viðburði svo fólk sjái birtingarmyndina. Fólk finnur ekki endilega að þetta séu kynþáttafordómar en maður finnur mismunun.“ 

„Æ, er hún nógu málefnaleg?“

Mismunun sem Lenya Rún hefur sjálf verið beitt hefur meðal annars verið í formi þess sem hún kallar tókenisma. Félög og samtök hafa beðið hana að taka þátt í starfi og vera sýnileg á myndum til að koma vel út en ekki vegna verðleika hennar eða til að fá hana til raunverulegrar þátttöku. „Það er verið að dingla manni fyrir framan fólk og segja: Hey, sjáið hvað við erum góð, við erum með útlending hjá okkur,“ lýsir Lenya Rún. „Þú ert andlit samtakanna eða fylkingarinnar en færð svo ekkert að taka þátt í innra starfinu eða stefnumótuninni því það er svona: Æ, er hún nógu málefnaleg? Er hún með nógu mikla reynslu?“

Sek um rasisma þegar þau reyna að sýna fram á fordómaleysi

Margir hafa sagt Lenyu Rún frá svipaðri reynslu. „Þetta gerist til dæmis oft hjá stofnunum sem veita skólastyrki eða einhvers konar styrki. Þá er alltaf útlendingurinn eða manneskja af öðrum kynþætti á myndinni,“ segir hún. Íslendingar séu svo uppteknir af því að vera pólitískt rétthugsandi og sýna fordómaleysi að það snúist upp í andhverfu sína. „Þetta verður of mikið og fer þá óvart út í rasisma.“

Hún segir að Íslendingar beri sig gjarnan saman við Bandaríkin þar sem rasisminn sé augljósari og fólk í valdastöðu flíki kynþáttahyggju sinni án þess að fela nokkuð. „En á Íslandi er þetta lúmskara,“ segir hún.

Fara í vörn og vilja ekki hlusta og læra

Þegar hún hefur sjálf bent á rasisma segir hún að margir fari í vörn, séu ekki tilbúnir að hlusta eða læra. „Þau eru bara, nei, við erum að standa okkur svo vel, það eru engir fordómar á Íslandi. En það eru fordómar alls staðar. Meira að segja ég get verið með fordóma gagnvart einhverju.“

Lenya Rún er spennt fyrir streyminu og ánægð með að vera fengin til að taka þátt í því ásamt Derek og Chanel sem bæði hafa lagt sitt af mörkum til að fræða fólk um rasisma með aktívisma, útvarpsþáttum og blaðaútgáfu svo eitthvað sé nefnt. „Við erum svo tilbúin öll þrjú alltaf til að fræða.“

Upplýsingar um viðburðinn má finna hér og hér er hægt að streyma honum klukkan sex í dag.

Rætt var við Lenyu Rún Taha Karim í Mannlega þættinum á Rás 1.