Nýleg verðhækkun á áskrift að Spotify ætti að skila sér til tónlistarfólks á Íslandi, segir Eiður Arnarson framkvæmdastjóri félags íslenskra hljómplötuútgefanda. Hann segir að Spotify greiði íslensku tónlistarfólki mun meira en almennt er talið.
Eiður segir að hækkunin ætti að þýða um 350 milljóna króna veltuaukningu hjá Spotify á Íslandi og að stærstur hluti þeirrar upphæðar skili sér til rétthafa, það er útgefenda, flytjenda og höfunda. Þetta kom fram í viðtali við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Hávær umræða hefur um langt skeið verið um greiðslur Spotify. Eiður segir að þegar virðisaukaskattur hafi verið dreginn frá renni um 70% af öllum greiðslum áskrifenda til rétthafa. Vandinn liggi frekar hjá öðrum tónlistarveitum svo sem You Tube sem greiði rétthöfum margfalt minna. „Nú er ég ekkert að reyna að halda því fram að tónlistarútgefendur, flytjendur og höfundar séu að fá nóg, það er ekki það sem ég er að segja, en þeir eru að fá miklu meira en fólk virðist almennt halda,” segir Eiður.
Um 100.000 Íslendingar eru með áskrift að Spotify og telur Eiður ekki ólíklegt að það sé heimsmet, sé miðað við höfðatölu. Áskriftin hafi ekki verið hækkuð frá því að Spotify varð aðgengilegt á Íslandi árið 2013 og því haldist óbreytt í átta ár. Gjaldið hækki um 10% hjá langstærstum hluta íslenskra áskrifenda.
Gengi krónunnar hefur einnig áhrif á hversu mikið íslenskt tónlistarfólk fær greitt hjá Spotify. Eiður segir að ekki geti hver sem er hlaðið efni inn á veituna heldur verði rétthafar að fara í gegnum dreifingarfyrirtæki sem séu í samstarfi við Spotify. „Þau taka við peningunum og deila niður á alla sem eiga efnið sem spilað var. Það er einfaldlega greitt í hlutfalli við spilun,” segir Eiður. Allar greiðslur eru í evrum og því sveiflist upphæðirnar með genginu.
Sjálfur segist Eiður vera jákvæður í garð tónlistarveitna á borð við Spotify. „Ég hef sjálfur sveiflast fram og til baka í jákvæðni og neikvæðni gagnvart þessu fyrirbæri sem tónlistarveitur eru. Ég er nú alltaf að hallast að því meira og meira að það sé miklu meira jákvætt við tónlistarveitur,” segir Eiður. Hann segist þó vera óþreytandi að benda áhugafólki um tónlist á að besti aðdáandinn sé sá sem kaupir sér plötur en hlustar á Spotify.