Elísabet Jökulsdóttir sýnir aðdáunarverða leikni í skáldsögunni Aprílsólarkuldi, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.


Gauti Kristmannsson skrifar:

Við elskum þá sem við eigum. Þessi stutta skáldsaga, nóvella í raun, hefst á stuttum útdrætti á á þeirri sögu sem sögð er í bókinni og höfundurinn segir strax með því að það sem gerist skipti ekki höfuðmáli, heldur hvernig það gerist og ekki síst hvernig er sagt frá því. Þetta hafa fleiri gert, en það sýnir samt dirfsku að fara þannig að. Það er list að segja frá sálarkvölum og því sem fer í gegnum kollinn á geðveikri manneskju og hefur margur höfundurinn reist sér hurðarás um öxl með því. En reynslan af því og opinská frásögn getur boðið upp á það og í þessu tilfelli tekst það sannarlega. Það tekst líka með meðulum skáldskaparins, þrátt fyrir að verið sé að segja lítt dulbúna sjálfsævisögu í þriðju persónu, uppbygging og orðfæri ganga hér í takt og skila verkinu í mark, ef svo má segja.

Sagan hefst á áfalli ungrar konu um tvítugt. Faðir hennar deyr snögglega og án þess að hana renndi í grun að hann væri feigur. Það er alltaf áfall að missa okkar nánustu, enþað getur verið sérstaklega slæmt á viðkvæmum aldri og algerlega óundirbúið. Ást hennar á föðurnum var mikil, þrátt fyrir að hann hafi ekki alltaf verið sá blíðasti í umgengni sinni við hana, önnum kafinn maður að vinna að frama sínum í leikhús- og skáldaheimi. Í gegnum söguna sjáum við einnig að æskulífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum, einelti og annað í þá veruna gerir sína óafturkræfu grikki, auk þess sem barnið í systkinahópnum er ekki alltaf öruggt um stöðu sína eins og allir þekkja sem eiga systkini. Í ofanálag kom skilnaður foreldranna.

Bókin skiptist í fjóra kafla sem hver hefur sitt meginþema; sá fyrsti er að hluta tregasöngur um föðurinn þótt söngur sé kannski ekki rétta orðið, en sorgin opnar á flóknar hugleiðingar sögukonunnar, Védísar, um dauðann og skáldskapinn; hún hefur greinilega litið til föðurins undir rós þótt ekki hefði hún sjálfsöryggið á þeim tíma til að sjá sig sem skáld. Úr því rættist greinilega eins og sjá má á mörgum bókum skáldkonunnar og ekki síst þessari síðustu.

En áfallið verður til þess að hún frýs einhvern veginn og getur ekki gefið sig sorginni á vald eins og hún lýsir mjög vel og trúverðuglega, áfallið er of mikið til að hún geti syrgt og augljóst verður að sá missir og annar til valda niðurbroti á sálarlífi söguhetjunnar. Ekki strax, eins og flestir reynir hún að berjast í gegnum áfallið þrátt fyrir það, og hún sér núna, svo löngu síðar, að það er kannski meginorsök erfiðleikanna sem í kjölfarið fylgja. En textinn sýnir líka að eitthvað hefur orðið til samt sem áður, eitthvað sem varð að skáldskap löngu síðar. Það er bara ekki víst að allir nái því að gera upp svo erfiðar stundir með skáldskapnum. Það hefur þó gerst hér og er það vel.

Í öðrum kafla finnur hún svo ástina, hugsanlega allt of fljótt eftir áfallið, og hún sogast inn í ástarbrímann sem er slík víma að hann yfirgnæfir framan af áfengis- og fíkniefnaneysluna sem þau skötuhjú iðka af krafti það sumarið. Þarna opnar skáldkonan heim sem margir gengu í gegnum á áttunda áratugnum af mismiklum krafti, einhvers konar síðhippastemning, með áherslu á fíkniefnaþáttinn, fremur en frelsun heimsins. Þetta var ekki einungis uppfinning þessarar kynslóðar heldur einnig þeirrar tilfinningar, sem grasséraði þá, að smáborgaraháttur væri fyrirlitlegur og var það arfur undanfarandi bóhemakynslóðar. Fyrir nú utan þessi venjulegu fyllerí Íslendinga, kojufyllerí eins og bróðir kærastans stundaði í landlegum. En fyrir hana var ástin allt og ekkert, heilt haf af brothættri hamingju, þótt undan ástarflóðinu hafi fjarað nokkuð hratt.

Þriðji kaflinn lýsir því að hluta, en er einnig notaður til endurlits í æsku og hugleiðinga um tilveruna, eins og reyndar gerist víðar; þar er einnig lýsing á tímabili þar sem söguhetjan vann á Kleppi og þar má sjá eitthvert ljós, en þá taka fíkniefnin við og hún missir fótanna. En neyslan er kannski ekki endilega orsök í þessu tilfelli, heldur að hluta afleiðing áfallsins og hins að umhverfið tekur völdin, elskhuginn dásamlegi hefur mestan áhuga á partýlífinu eftir að honum áskotnast fé í sjómennsku. Ein persóna kemur lítið við sögu, vísast til allrar hamingju, barnið hennar sem er í sveitinni meðan á því mesta stendur. En upp úr stendur að ástin er ekki framtíð og hamingja, heldur hreyfing eins og sagt er við hana. Spurningin er bara hvert hún hreyfist.

Lokakaflinn er magnaðastur í bullandi maníu, sem söguhetjan lendir í eftir að hún missir kærastann til Noregs, hann fer frá henni án þess að skilja beinlínis við hana, hann fer bara til Noregs, af öllum stöðum. Kannski hafði hann fengið nóg af eigin sukki. Þetta áfall bergmálar hið fyrsta og það er líkast til kornið sem fyllir mælinn, við tekur lýsing á maníu þar sem sögukonan er á þeysireið í eigin höfði og um Reykjavík, og þar sýnir skáldkonan aðdáunarverða leikni í að lýsa samhengislausu rugli þannig að fullkomið samhengi sé í; söguhetjan sér samhengi í hverju smáatriði sem á vegi hennar verður og það er spennandi að lesa hvernig allur okkar samhengislausi heimur hangir saman á túlkun og orðum, þetta er sannkallaður rússíbani, skelfilegur og skapandi í senn.

Óþarfi er að rekja nánar hvernig sagan fer, en ekki varð hjá því komist að lýsa því sem á undan gekk til að fá sýn á hvernig höfundinum tekst að tengja áföll og sálarangist þannig heildarmynd sé á. Hún beitir einnig skáldlegum meðölum eins og mælskulist, ljóðrænum sprettum og vel heppnuðum myndlíkingum eins og þeirri um hafið sem er endurtekin framan af, þangað til geðveikin nær yfirhöndinni. En mikilvægasta orðið kemur aldrei beint frá söguhetjunni, þótt við áttum okkur á því, að það er lykilorðið fyrir persónuna í lokin; nákvæmlega það sem þessi saga segir okkur með dramatískum hætti er að þetta eina orð er björgunarhringurinn, þegar okkur skolar þangað út á hafið þar sem lífið liggur við. Þá, og kannski aðeins þá, geta þau, sem okkur elska og eiga, bjargað okkur. En þá verður líka að segja það.