Umhverfisráðherra hefur kynnt tillögur um reglur sem eiga að gilda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Samkvæmt þeim er landinu skipt í þrjú svæði; svæði þar sem alfarið verður bannað að reisa vindorkuver, svæði þar sem ákveðnar hömlur verða settar á leyfi fyrir vindmyllur og loks svæði þar sem heimilt verður að virkja vindorku með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Samorka segir að tillögurnar séu skref í rétta átt en það þurfi þó að breyta þeim. Framkvæmdastjóri vindmyllufyrirtækis segir að ums
Það hefur verið tekist á um vindorkuna. Þó að fjölmargar hugmyndir og áætlanir um vindorkuver víðs vegar um landið hafi verið kynntar hefur ekkert orðið af þeim áformum vegna þess að engar reglur eru til um hvernig málsmeðferðin eigi að vera. Sjónarmiðin hafa verið frá því að öll vindorka eða vindorkuver sem fara yfir 10 MW eigi að fara í rammaáætlun, nákvæmlega eins og vatnsorka og jarðvarmi. Hörðustu andstæðingar þess telja hins vegar að vindorkan eigi alls ekki heima í rammaáætlun. Ferlið þar sé bæði flókið og taki allt of langan tíma. Eðli vindorkunnar sé allt annað en t.d. vatnsorkunnar. Ákvörðun um vindorku eigi að vera í höndum viðkomandi sveitarfélaga.
Rauða svæðið
Nú hefur umhverfisráðherra tekið af skarið og kynnt í samráðsgáttinni frumvarp og þingsályktunartillögu um meðferð vindorkuvera. Þar er lagt til að landinu verði skipt í þrjú svæði.
Á svæði eitt eða á rauða svæðinu verður ekki heimilt að virkja vindorku. Í þessum flokki eru friðlýst svæði í A-hluta náttúruminjaskrár. Þar inni eru t.d. þjóðgarðar. Bannsvæðið nær líka til svæða á heimsminjaskrá UNESCO eða sem hafa verið tilnefnd á skrána, svokallaðra Ramsarsvæða, óbyggðra víðerna innan marka miðhálendisins, svæða í B-hluta náttúruminjaskrár og loks brunn- og grannsvæða verndar.
Gula svæðið
Í flokki 2 sem auðkenndur er með gulum lit eru svæði sem geta talist viðkvæm með tilliti til nýtingar vindorku en uppbygging vindorkuvera getur þó komið til greina. Umsókn um vindorku á þessum svæðum þarf að fara fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar. Drög að frumvarpi um breytingar á lögum sem gilda um rammaáætlun verða lögð fram samkvæmt tillögu ráðherra. Málsmeðferðin verður nokkuð önnur en gildir t.d. um vatnsorku þar sem tillögur verkefnisstjórnar eru lagðar fyrir Alþingi. Í þessu tilfelli leggur verkefnisstjórn tillögur sínar fyrir ráðherra. Samkvæmt drögunum fær hann það vald að hafna eða samþykkja tillögu.
Orðrétt segir:
Fallist ráðherra ekki á tillögu verkefnisstjórnar skal hann rökstyðja þá ákvörðun sína og tilkynna umsækjanda og er stjórnvöldum þá óheimilt að veita leyfi til nýtingar virkjunarkostarins innan svæðisins.
Í þessum flokki eru tilgreind ýmis svæði; 10 kílómetra svæði umhverfis þau rauðu eða bannflokkinn, mikilvæg fuglasvæði, svæði með friðlýstum menningarminjum og ýmis önnur svæði. Gula svæðið þekur mjög stóran hluta landsins ásamt rauða svæðinu.
Loks er það þriðji flokkurinn þar sem heimilt er að koma fyrir vindmyllum stærri en 10MW. Í þessum flokki fer leyfisveitingin eftir skipulagslögum og lögum um umhverfismat. Á endanum er það viðkomandi sveitarfélag sem tekur ákvörðun.
Aukið íslenskt flækjustig
Hver eru viðbrögðin við áformum umhverfisráðherra um uppbyggingu vindorku? Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku segir að Samorka leggist ekki gegn tillögunum. Hann segir að tillögurnar séu skref í rétta átt.
„Við teljum að kerfið gæti verið einfaldara og skilvirkara heldur en verið er að leggja til. Til dæmis með því að hafa þetta í meira mæli í hefðbundnu skipulagsferli með aðkomu sveitarfélaganna. Þó þannig að það sé sérstaklega tekið fram hvernig eigi að horfa á lífríkið, umhverfismál og annað slíkt.
-Tiltölulega lítill hluti er á valdi sveitarfélaganna. Finnst ykkur hann vera of lítill?
„Hann gæti klárlega verið meiri. Þeim er alveg treystandi til að horfa á nærumhverfið sitt og þau viðfangsefni sem uppsetning vindmylla kallar á og vinna það í sátt við sitt nærumhverfi og opinberar almennar reglur.
Páll bendir á að reglurnar byggi á skoskri fyrirmynd.
„Við spyrjum okkur hvers vegna við fylgjum ekki betur fyrirmyndinni. Hvers vegna þurfum við að vera með aukið íslenskt flækjustig inn í annars ágætt kerfi sem er verið að leggja til,“ segir Páll.
Í skoska kerfinu eru gul svæði þar sem gerðar eru strangari kröfur en ella. Eftir sem áður eru það sveitarfélögin sem taka endanlega ákvörðun.
Verður tvöfalt erfiðara
Magnús B. Jóhannesson er framkvæmdastjóri Storm orku. Fyrirtækið hefur unnið að því að koma upp vindmyllugarði við Hróðnýjarstaði í Dölunum. Samkvæmt tillögum umhverfisráðherra yrði garðurinn á gulu svæði sem þýðir að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjallar um málið.
„Í dag gildir tvöfalt kerfi. Það er í raun tvöfalt kerfi við val á þessum verkefnum sem verða síðan að veruleika. Í fyrsta lagi erum við með lög um umhverfismat, við erum með skipulagslög, raforkulög og fleiri lög. Síðan bætist rammaáætlun ofan á það. Það gerir allt þetta verkefni tvöfalt erfiðara. Við þurfum að fara í gegnum nálarauga í fyrsta fasann sem eru öll þessi lög sem ég talaði um áðan og svo þurfum við að fara aftur í gegnum nálaraugað þegar kemur að rammaáætlun. Þannig að þetta gerir vinnslu á svona verkefnum tvöfalt erfiðari,“ segir Magnús.