Ekki er lengur hætta á snjóflóði við hafnarsvæðið á Hofsósi. Snjóhengjunni var mokað í burtu í gærkvöld og gekk það vel. Ingvar Gýgjar Sigurðsson er tæknifræðingur á veitu og framkvæmdasviði sveitarfélagsins Skagafjarðar. Hann segir að verkið hafi gengið vel og að hættan sé liðin hjá.

„Hættan er liðin hjá og það verða tæki á svæðinu í dag að hreinsa til. Hengjan var nöguð niður af snjótroðara frá skíðasvæðinu Tindastóli. Þetta gekk allt vonum framar, alveg eins og í sögu. Það er allt farið burtu, það var farið af stað með það fyrir augum að byrja og klára það í gær. Það voru allir komnir til síns heima upp úr kl 23 í gærkvöldi. Það er ekki að safnast snjór þarna lengur. Eins og veðurspáin er þá lítur þetta bara vel út. Það var gengið þannig frá því að það er minni hætta á að þetta gerist“ segir Ingvar.

Hann segir að það hafi verið gert með því að milda út brekkuna og móta snjóinn þannig að hann safnist síður í brekkuna. Þetta var gert með í samráði við ofanflóðaeftirlitsmenn Veðurstofunnar. 

Nokkrir verktakar komu að verkinu og gekk það vel fyrir sig að fyrirbyggja að flóðið félli á húsnæði Vesturfaraseturs sem er neðan við hengjuna. 

Ingvar Gýgjar tók meðfylgjandi myndskeið, þau eru birt með góðfúslegu leyfi hans.