Það er af nógu að taka í Undiröldunni, en það sem helst má nefna er að Gusgus og Margrét í Vök eru að senda frá sér sitt allra stysta lag, Baggalútur heldur áfram að fíflast í honum Káinn, en auk þess eru spiluð ný lög frá Yambi og Jörgen, Pétur St. Arason, Rebekku Blöndal, Nýju fötum keisarans, Rolf Hausbentner Band og Diagram.


Gusgus - Stay the Ride

Spennan fyrir nýrri Gusgus og Vök plötu er farinn að magnast og lagið Higher búið að gæla við hlustir landans í nokkrar vikur. Nú er komið að söngli númer tvö sem er aðeins rólegri, þó að Stay the Ride verði líklega aldrei titlað sem ballaða.


Yambi og Jörgen - Maze

Lagið heitir Maze og er samið af Yambi og Jörgen sem er upptökustjóri og plötusnúður frá Kólumbíu og hefur búið hér á landi um nokkurt skeið. Strákarnir fengu söngkonu frá Kaliforniu til að syngja inn á Maze, en lagið fjallar um að vera týndur í lífinu, finnast maður vera skrítinn á köflum og díla við kvíða lífsins, eins og segir í tilkynningu.


Baggalútur - Hlægifíflin

Platan Kveðju skilað með Baggalút kom út seinni hluta síðasta árs og inniheldur 13 ný lög flokksins við kvæði eftir vestur-íslenska skáldið Káinn. Er ég að verða vitlaus eða hvað hefur gert það gott á öldum ljósvakans en nú er komið að laginu Hlægifíflin að fífla landann.


Pétur St. Arason - Mig langar ekki baun að elska þig

Nípan rís þar tignarleg er titillinn á nýlegri sjö laga plötu Péturs St. Arasonar. Lagið Mig langar ekki baun að elska þig er að finna á henni en það er eftir Tom Waits, en textann gerði Pétur sjálfur.


Rebekka Blöndal - With You

Rebekka Blöndal hefur sent frá sér jazzballöðuna With You sem hún samdi með Ásgeiri J. Ásgeirssyni en textann vann hún með Stefáni Erni Gunnlaugssyni Íkorna. Með henni í laginu eru einnig Matthías Hemstock, Sigmar Matthíasson og áðurnefndur Ásgeir.


Nýju fötin keisarans - Ég er tilbúinn að elska

Þriðji singullinn af væntanlegri breiðskífu hljómsveitarinnar Nýju fötin keisarans er lagið - Er ég tilbúinn að elska? og fjallar um það hvað lífið er mismunandi. Strákarnir segja það líka í anda þeirra aðstæðna sem hafa verið síðasta ár, þar sem þeir hafa þurft að líta inn á við og taka einn dag í einu.


Rolf Hausbentner Band - Let it fly

Rolf Hausbentner Band er hljómsveit sem spilar rokk og ról fyrir ljúfar sálir og var stofnuð í fyrra. Meðlimir hennar koma héðan og þaðan og hafa að eigin sögn harkað á öldurhúsum og knæpum í áravís. Rolf Hausbentner Band vinnur að upptökum á fyrstu plötu sinni sem væntanleg er árið 2022.


Diagram - Reflections

Hljómsveitin Diagram er samstarfsverkefni Hákonar Aðalsteinssonar og Fred Sunesen, en báðir eru þeir búsettir í Berlín þar sem þeir vinna að tónlist í ólíkum verkefnum eins og t.d. The Brian Jonestown Massacre, The Third Sound, Gunman and The Holy Ghost og fleirum.