Fyrsta íslenska kvikmyndin eftir konu er fundin Hún er frá árinu 1927 og er dansmynd eftir Ruth Hanson, unnin í samstarfi við Loft Guðmundsson.
Konur voru framan af fámennar í kvikmyndagerð hér á landi. Hingað til hefur myndin Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur og Óskar Gíslason frá 1952 verið álitin fyrsta kvikmyndin sem kona gerði hér á landi. En nú hefur fundist filma með rúmlega þriggja mínútna langri dansmynd sem Ruth Hanson, dans- og íþróttakennari, gerði með aðstoð Lofts Guðmundssonar aldarfjórðungi fyrr.
Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og rannsakar íslenska kvikmyndasögu.
„Partur af doktorsverkefni mínu er að fara í frumheimildir íslenskrar kvikmyndasögu, kvikmyndirnar sjálfar og gramsa í því sem er til hér á Kvikmyndasafninu, finna týndar og gleymdar filmur sem leynast hérna inni á safninu og komast að því hvaðan þær koma og hver tók upp. Og stundum finnur maður gullmola.“
Danskennari sem gustaði af
Í fyrra varð einmitt einn slíkur gullmoli á vegi Gunnars, kvikmynd frá 1927 eftir Ruth Hanson, fyrsta myndin eftir konu á Íslandi.
„Ruth var í raun ekki kvikmyndagerðarmaður eða kvikmyndagerðarkona, hún var dansari og leikfimikennari á Íslandi. Hún var af dönskum ættum, menntaði sig í dansi og leikfimi í Danmörku en kom aftur heim 1926.“
Ruth stóð á tvítugu þegar hún kom aftur til Íslands og lét strax til sín taka.
„Helstu heimildir mínar eru dagblöðin. Fyrir 1926 er ekkert minnst á hana en eftir það er minnst á hana í hverri viku. Hún stofnaði dansskóla þar sem hún kenndi nútímadansa og er frumkvöðull í danssögu Íslands. Hún og systur hennar, Rigmor og Ása, héldu líka danssýningar.“
Ruth var að auki mikill sundgarpur, þreytti Engeyjarsund fyrsta allra kvenna sumarið 1927 og varð Íslandsmeistari í björgunarstakkssundi sama ár.
Réð Loft Guðmundsson í vinnu
Árið 1927 hafði Ruth líka við Loft Guðmundsson, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann, til að að gera stutta kennslumynd um Flat-Charleston dans. Ruth Hanson var þá 21 ár systir hennar og dansfélagi Rigmor,var 14 ára.
„Loftur var stór kvikmyndagerðarmaður á þessum tíma. Hann var nýbúinn að gera Ísland í lifandi myndum og var vel þekktur fyrir það. En hann vantaði pening og fór að selja auglýsingar í sínar myndir. Hann hefur væntanlega verið opinn fyrir því að selja aðgengi að stúdíóinu sínu og sinni kunnáttu. Hann er bara í vinnu hjá Ruth við að gera myndina, sem hún framleiðir. Hún lætur gera myndina, kemur með hugmyndina, útfærsluna. Þetta er bara hennar mynd.“
Myndin var sýnd í kvikmyndahúsum í viku í desember 1927 en féll síðan í gleymskunnar dá.
Spæjaravinna á Kvikmyndasafninu
Gunnar komst á sporið þegar hann var að rannsaka Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur og Óskar Gíslason frá 1952 en hingað til hefur hún verið talin fyrsta myndin sem gerð var af konu hér á landi.
„Það var gerður útvarpsþáttur um Ágirnd árið 2006 og í kynningu fyrir hann var minnst á að Rigmor Hanson hafi kannski gert mynd árið 1930. Ég stökk á þetta, hafði samband við þau í Kvikmyndasafni Íslands, fór að grúska og fann hana. Að sjá hana hér á filmu á safninu var stórkostlegt.“
Hins vegar þurfti að staðfesta uppruna myndarinnar og hver tók hana upp.
„Hún er tekin upp í ljósmyndastúdíói þannig að ég bar saman bakgrunninn úr þessari mynd við bakgrunna úr öllum ljósmyndastúdíóum landsins sem ég fann. Og einhvern tímann seint um kvöld rambaði ég á sama bakgrunn. Ég sofnaði ekki þá nótt.“
Giftist, flutti og hvarf
Af Ruth Hanson er það hins vegar að segja hún var áfram áberandi í bæjarlífinu í Reykjavík, þar til hún kynnist skoskum manni, giftist honum og flutti til Skotlands 1929.
„Hún hverfur eftir það,“ segir Gunnar. „Það er svo sorglegt að horfa á eftir svona konu, þessu ótrúlegu afli, hverfa inn í feðraveldið.“
Fjallað var um myndina í Menningunni. Horfa má á alla myndina hér að ofan sem og innslagið úr þættinum.