Ragnar Axelsson ljósmyndari var við það að missa fingur þegar hann tók sína uppáhaldsmynd á ljósmyndasýningu sem verður opnuð á laugardaginn. Hann segist ekki vera að predikera með myndunum, en segir mikilvægt að skrásetja líf sem er að breytast og hverfa.
Óhætt er að segja að Ragnar sé einn fremsti ljósmyndari landsins, og þótt víðar væri leitað. Á sýningunni sem verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur á laugardaginn má sjá 80 myndir sem hann hefur tekið á síðustu 30 til 40 árum. Flestar þeirra eru teknar á Grænlandi, en nokkrar voru teknar hér á landi. Sýningin heitir Þar sem heimurinn bráðnar.
„Þetta er blanda í gegnum árin. Þetta er svona ævintýraheimur, Grænland og líf sem er svolítið á hverfanda hveli og að breytast,“ segir Ragnar.
Farið, búið
Hverju viltu að sýningin skili? Eru einhver skilaboð í myndunum?
„Ég er ekki að predika neitt. Vísindamenn verða að rífast um það,“ segir Ragnar. „En það hefur hlýnað á jörðinni og það hefur verið kaldara. Og jörðin er í þeim fasa að það er að hlýna. Þannig að það þarf að dokúmentera það sem er að hverfa og breytast.“
Þannig að þetta er dálítil áminning um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra?
„Ja, ég tel bara mjög mikilvægt að skrásetja svona líf og breytingar. Þegar þú horfir á sumar myndirnar, þá er þetta augnablik sem þú tekur af lífi einhvers og myndin breytist aldrei. En sá sem er á myndinni mun breytast og þetta verður aldrei gert aftur. Sumt af því er ekki hægt að taka aftur. Það er farið, búið. Og fyrir framtíðina, að eiga þessar heimildir til, er mjög mikilvægt.“
„Enn illt í puttanum“
Ef ég píni þig til þess að velja eina uppáhaldsmynd á sýningunni, hver væri það?
„Ég myndi segja að það væri þessi hér,“ segir Ragnar og bendir á mynd af grænlenskum veiðimanni á leið á rostungsveiðar. „Margar eiga góðar minningar en þegar ég tók þessa mynd var ég við það að missa hendurnar eða putta. Hún fraus og það var allt hægt að virka. En ég er mjög ánægður með að hafa tekið hana. Hún er tekin í 49 gráðu frosti. Ég tók af mér lúffuna, var með þunna vettlinga, ég gat ekki smellt af með lúffuna, þannig að það sem gerist er að puttinn frýs á 10 mínútum. Og ég fattaði það ekki,“ segir Ragnar.
„Þessi minning verður alltaf til og mun alltaf verða til þegar ég horfi á þessa mynd. Mér er enn illt í puttanum. Það eru tvö ár síðan.“