Yfir 75% Íslendinga telja að innflytjendur hafi haft góð áhrif á samfélagið. Þetta kemur fram í umfangsmikilli rannsókn sem gerð var 2018. Þar kemur líka fram að tekjur tæplega 60% innflytjenda voru undir 400 þúsund krónum á mánuði.
Umfangsmikilli rannsókn
Það er ljóst að samfélagið á Íslandi hefur breyst talsvert á þessari öld vegna fjölgunar innflytjenda. Í upphafi aldarinnar var hlutfall þeirra um 3,6% en var komið upp í um 15 af hundraði í fyrra. Háskólinn á Akureyri hratt af stað á stöðu innflytjenda í byrjun árs 2018. Yfirskriftin var Samfélag án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi. Nú er komin út bók eða skýrsla sem inniheldur hinar ýmsu niðurstöður úr rannsókninni. Þær voru kynntar í dag. Fjallað er um skólakerfið, viðhorf Íslendinga til innflytjenda, stöðu þeirra á vinnumarkaði, félagslega og pólitíska þátttöku innflytjenda og aðgengi þeirra að menntun svo eitthvað sé nefnt. Ritstjórar voru tveir prófessorar við Háskólann á Akureyri, Markus Meckl og Hermína Gunnþórsdóttir. Fjölmargir fræðimenn koma að rannsókninni.
Hermína segir mikilvægt að afla upplýsinga um stöðu innflytjenda.
„Við erum að reyna að taka þverskurð af samfélaginu og reyna að átta okkur á stöðunni. Íslenskt samfélag hefur breyst gríðarlega mikið á síðustu árum. Við vitum kannski ekki almennilega hver staðan er. Til að hafa samræðuvettvang þá er gott að hafa rannsóknarniðurstöður sem þessar til þess að eiga samtal um þessi mál,“ segir Hermína.
Ný sjálfsmynd
Innflytjendum byrjaði að fjölga í flestum Vestur-Evrópuríkjum mun fyrr en hér á landi. Þau hafa flest þurft að meta sjálfsmynd sína. Skýrsluhöfundar benda á að Íslendingar standi nú frammi fyrir því að ákveða og endurmeta sjálfsmynd sína. Hermína segir að það sé hollt fyrir Íslendinga að gera það, sérstaklega vegna þess hve miklar breytingar hafi orðið á þessari öld.
„Sjálfsmyndin er auðvitað í stöðugri endurskoðun og breytist eftir því sem samfélagið breytist.“
Kom þægilega á óvart
En hver er staðan? Yfir 75% Íslendinga eru sammála eða mjög sammála því að innflytjendur hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Tæpa 4% eru ósammála eða mjög ósammála því. Þá virðast samskipti Íslendinga og innflytjenda vera umtalsverð. Tveir af hverjum þremur hefur til dæmis boðið innflytjenda heim til sín. Má segja að niðurstöðurnar sé jákvæðar hvað þetta varðar? Hermína segir að þetta hafi komið þægilega á óvart. Hafa verði í huga að úrtakið sé stórt og könnun byggð á spurningum. Hins vegar sé ekki kafað djúpt í einstaka samfélög eða samskipti.
„Viðmótið virðist vera jákvætt og í raun jákvæðara en maður skyldi ætla á margan hátt. Kannski segir þetta eitthvað um íslenskt samfélag. Þetta kom alla vega þægilega á óvart.“
Höfum við aðlagað okkur að innflytjendum?
En er hægt að segja út fá þessari rannsókn að útlendingar hafi aðlagað sig íslensku samfélagi? Hermína segir að það megi líka spyrja að því hvort við höfum aðlagað okkur þeim útlendingum sem hér búa. Þetta gangi í tvær áttir.
„Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að í vel heppnuðum fjölmenningarsamfélögum fær fólk að halda sínum sérkennum og sinni menningu. Þetta verður svona suðupottur. Þannig viljum við kannski sjá samfélagið þróast. Að fólk þurfi ekki að afneita því sem það ber með sér heldur verði til jákvæður sambræðingur sem býr til fjölbreytt og skemmtilegt samfélag,“ segir Hermína.
Við erum á réttri leið
En hvernig er skólakerfið að standa sig þegar kemur að kennslu fyrir innflytjendur? Í rannsókninni kemur fram að sum sveitarfélög hafi ekki móta sér skýra stefnu í þeim málum. Hermína segir að skólakerfið sé að mörgu leyti að standa sig mjög vel. Skólar hafi þurft að aðlaga sig á skömmum tíma. Hún bendir á að í mörgum stærri sveitarfélögum hafi verið unnið vel í þessum málum.
„ Það er mjög víða og kannski allt of víða sem við erum kannski ekki að veita þessu nógu mikla athygli. Kennarar í þessari rannsókn nefndu að þér séu einangraðir, sérstaklega í smærri samfélögum. Þeir hafi kannski ekki þá þekkingu og þá menntun sem þeir þyrftu að hafa. Þetta er stöðugt verkefni. Við erum á réttri leið held ég. Þetta er eitthvað sem sveitarfélög þurfa að taka meira sem heildstæða stefnu og skoða hvers konar samfélag við viljum byggja upp,“ segir Hermína.
Það skiptir máli að ná tökum á íslensku. Í rannsókninni kemur fram að útlendingar eru ekki alveg sáttir við þau námskeið sem eru í borði.
„Þeir útlendingar sem hafa náð góðum tökum á íslensku virðast vera virkari samfélagslega. Þeir til dæmis kjósa frekar og taka í raun meiri þátt í samfélaginu. Þannig að það er mjög mikilvægt að við bjóðum fólki upp á gott nám í íslensku.“
Fjölga þarf útlendingum í skólakerfinu
Innflytjendaþróunin er talsvert mikið seinna á ferðinni hér miðað við önnur Evrópulönd. Staðan hér er að enn sem komið er gegna innflytjendur ekki mörgum mikilvægum stöðum á Íslandi ef svo má að orði komast. Hermína segir að þetta sé samfélagslegt verkefni. Mikilvægt sé til dæmis að fjölga útlendingum í skólakerfinu.
„Vegna þess að þar leggjum við grunninn. Við þurfum að bæta aðgengi fólks að störfum sem hæfa menntunarstigi þeirra. Það er fjallað um það í skýrslunni hvort fólk er að fá störf sem samsvara menntun þess. Ef við horfum til dæmis til fjölmiðla þá eru ekki margir og kannski engir fréttamenn af erlendum uppruna sem eru að flytja okkur fréttir,“
Í rannsókninni er farið ítarlega yfir stöðu innflytjenda á vinnumarkaði. Hún var gerð í byrjun 2018. Þá kom í ljós að tæplega 60% innflytjenda voru með tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði. Stefnt er að því að gerð verði sams konar rannsókn aftur. Hermína hvetur sveitarfélög og stofnanir til að rýna í niðurstöðurnar.
„Og eiga svo samtal um það hvað þetta þýðir. Til dæmis varðandi kynjamun, launamun og konur af erlendum uppruna sem eru miklu verr staddar launalega séð heldur en konur sem eru íslenskar og á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að rýna í þetta markvisst vegna þess að við viljum ekki að ójöfnuður aukist. Við viljum að hér ríki jafnræði og jafnrétti fyrir alla. Ekki bara þá sem eru fæddir hér og uppaldir.“ segir Hermína.