Gísli Þorgeir Kristjánsson átti góðan leik fyrir Ísland á móti Noregi á heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld. Gísli lét varnarmenn norska liðsins hafa mikið fyrir sér og skoraði fjögur mörk. Hann segist stoltur að fá að taka þátt í þeirri þróun sem á sér stað hjá íslenska landsliðinu um þessar mundir.

„Mér finnst við vera að stíga í rétta átt sem lið og liðsheild. Ég er rosalega sáttur og stoltur að vera partur af þessu liði og þakklátur fyrir að fá að vera partur af þeirri þróun sem er að eiga sér stað hjá landsliðinu,“ sagði Gísli eftir leikinn gegn Noregi í kvöld. 

„Við erum að spila miklu betur en á EM á síðasta ári. Það er orðið voða þreytt að heyra þetta en það vantar líka fullt af leikmönnum í okkar lið. Það er bara þannig. En annars eru þetta dauðafærin sem fara með leikinn í kvöld,“ sagði Gísli. Lokatölur urðu 35-33 en íslenska liðið klúðraði nokkrum afar ákjósanlegum færum seint í leiknum. 

Hægt er að sjá viðtalið við Gísla Þorgeir í spilaranum hér að ofan.